Nýlega var gefin út bókin Saga Keflavíkur 1949–1994 og er efniviður hennar í takt við titilinn. Um er að ræða fjórða bindi í bókaröðinni og nú er þráðurinn tekinn upp í kringum þann tíma þegar Keflavík fékk kaupstaðarréttindi og er þróun bæjarfélagsins skoðuð frá ýmsum vinklum.

„Bandaríkjaher kemur til landsins á vegum NATO árið 1951 og það eru langstærstu kaflaskilin í sögu Keflavíkur og mjög stór kaflaskil í sögu Íslands,“ segir Árni Daníel Júlíusson, höfundur bókarinnar. „Koma herliðsins sneri öllu á haus enda þurfti skyndilega mikið af húsnæði sem var á þeim tíma af skornum skammti. Allt mögulegt húsnæði var þá dregið á flot, auk þess sem lagst var í miklar framkvæmdir undir forystu Hamilton-félagsins.“

Árni Daníel segir Suðurnesjamenn ekki hafa verið með í ráðum, heldur hafi þeir verið látnir bera byrðina og hafi gert síðan.

„Það er ekki bara að þeir hafi grætt á þessu, enda vantaði svo sem ekki atvinnu, en þeir komu á margan hátt illa út úr þessu líka,“ segir hann.

Hart rokkað miðað við höfðatölu

Efnistök bókarinnar skorðast ekki eingöngu við setuliðið og er einnig kafað í sögu flugvallarins, sjávarútvegsins og verkalýðsbaráttunnar. Rokkinu eru auðvitað gerð góð skil líka.

„Rokkið byrjar í kringum 1955 í Keflavík og magnast upp í kringum Krossinn,“ segir Árni Daníel um samkomuhúsið þar sem fjögur til fimm hundruð manns söfnuðust saman á balli hverja helgi. „Það var rosamarkaður fyrir hljómsveitir. Þar urðu til Hljómar sem leiða eiginlega íslenska rokkið og poppið til 1981 þegar pönkið kom.“

Í Keflavík hefur lengi verið óvenjuhátt hlutfall af rokkurum miðað við höfðatölu enda spruttu þaðan stirni á borð við Rúna Júl, Gunna Þórðar og Magga Kjartans.

„Það varð til þessi sena þarna sem er svo afgerandi í því hvort staður nær að verða rokkstaður eða ekki. Það myndaðist ákveðið tengslanet af texta- og lagahöfundum þar sem hver styrkti annan.“

Vaxtarverkir og vegaframkvæmdir

Sögusvið bókarinnar er auðugt og Árni Daníel segir erfitt að gera grein fyrir því í einni bók. Þar séu margar sögur sem varpi ljósi á tíðarandann, meðal annars baráttuna tengda Reykjanesveginum.

„Umferðin jókst svo rosalega eftir að herinn kom að vegurinn var fljótur að slitna og varð um tíma nánast ófær þangað til hann var steyptur. Það var mjög hörð barátta sem Keflvíkingar háðu fyrir því að fá slitlag á veginn sem kom illa út úr þessum vaxtarverkjum.“