Formin í náttúrunni eru í forgrunni á sýningu Sævars Karls sem opnuð verður á laugardag, en hann hefur haldið fjölda einkasýninga frá því hann söðlaði um í lífinu, hætti kaupmennsku og byrjaði að mála.

Sævar Karl Ólason er í óðaönn að undirbúa sýningu á myndverkum sínum í SÍM-salnum í Hafnarstræti 16 í Reykjavík, en hún verður opnuð á laugardag – og myndefnið sækir hann ekki langt.

„Ég mála abstrakt, fæst við formin í náttúrunni, í þetta skiptið í garðinum mínum,“ segir hann á boðskortinu sem komið er í dreifingu, en í samtali við blaðamann bætir hann því við að hann sé undir áhrifum af íslenska sumrinu, sem verki einkar sterkt á hann eftir margra ára veru úti í Þýskalandi þar sem hann hefur búið um árabil. „Sumarið á Íslandi er einstakt, dagarnir eru langir,“ segir hann á boðskortinu og vill meina að náttúran um hásumarið virðist vera önnur að morgni en að kvöldi.

Heima á sumrin

„Ég reyni að vera heima á Íslandi á sumrin, enda þykir mér svo vænt um íslensku birtuna á þessum árstíma,“ segir Sævar Karl og kveðst hreinlega forðast hásumarið á meginlandinu sem sé allt of mollukennt fyrir hann.

Hann flutti til Þýskalands árið 2008 eftir farsælan kaupmannsferil á Íslandi um áratugaskeið, en hann rak rómaða herrafataverslun undir eigin nafni á Laugavegi og í Kringlunni þar sem hann stimplaði þýska fatamerkið Boss inn í huga landsmanna með þeim orðum að einfaldur smekkur fælist í því að velja aðeins það besta.

„Ástæða þessa umsnúnings í lífi mínu má rekja til þess að ég fékk svo gott tilboð í verslun mína sem ég gat ekki hafnað. Og þá fór ég náttúrlega að hugsa um hvað ég ætti að fara að gera,“ rifjar Sævar Karl upp og kveðst hafa spurt sig hvað hann langaði mest af öllu að gera í lífinu. „Og svarið var myndlistin,“ segir hann, alsæll með ákvörðunina. „Mig langaði að fara að njóta lífsins og vissi að það væri best að njóta þess með pensil í hendi,“ bætir hann við.

Listin blundaði

Listnám sitt byrjaði hann raunar miklu fyrr, í Myndlistaskólanum í Reykjavík upp úr miðjum níunda áratugnum, svo kúnstverkið hefur alltaf blundað í honum. Síðar varð hann gestanemandi við Listaháskóla Íslands um aldamótin, en röskum áratug seinna var komið að því að læra abstraktmálun úti í Þýskalandi við Kunstakademie BadReichenhall og Kunstakademie Kolbermoor um þriggja ára skeið.

„Ég hef aldrei fest mig í einni gerð málverka,“ segir Sævar Karl. „Ég er bara þeirrar gerðar að mig langar að prófa hvaðeina í myndlistinni, svo milli þess sem ég mála stórar abstraktmyndir, vinn ég minni uppstillingar og fígúrur, en ég er mjög hrifinn af mannslíkamanum og nektinni sem heillar mig sem málara. Annars er ég bara spontant málari og fylgi huganum. Núna er ég til dæmis að mála íslenska náttúru eftir að hafa farið um hálendið í sumar. Ég sé ekkert annað en fossa í huganum og þeir munu rata á léreftið,“ segir Sævar Karl að lokum, síkvikur með pensilinn á lofti.