Einar Bárðarson athafnaskáld fagnar um þessar mundir 20 ára höfundarafmæli en í apríl voru 20 ár frá því lagið „Farin“ með hljómsveitinni Skítamóral kom út. Það var fyrsta lagið sem Einar samdi og gefið var út og vinsældir lagsins urðu slíkar að það varð aldrei aftur snúið. Lögin urðu nokkur í kjölfarið en það var svo ekki fyrr en lagið Birta eftir Einar vann forkeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva að Einar varð „heimsþekktur“ á Íslandi en í framhaldi af því upphófst mikil og dramatísk deila við Útvarpsráð um það á hvaða máli yrði sungið í keppninni erlendis.

Um og upp úr síðustu aldamótum var Einar Bárðarson fyrirferðarmikill laga- og textahöfundur. Hann samdi mörg af vinsælustu lögum Skítamórals, Á móti sól og Nylon flokksins. Þá samdi hann vinsæl lög fyrir flytjendur á borð við Stjórnina, Björgvin Halldórsson, Jóhönnu Guðrúnu, Ingó og Veðurguðina, Hvanndalsbræður, Garðar Thór Cortes, og fleiri.

Í ár fagnar Einar Bárðarson 20 ára höfundarafmæli en núna í júní eru 20 ár frá því að lagið Farin með Skítamóral kom út, fyrst laga hans. Farin náði 1. sæti íslenska vinsældalistans í sama mánuði og sat þar í þrjár vikur. Svo komu lögin eitt af öðru sem heimsóttu þann ágæta lista; Birta, Spenntur, Myndir, Ennþá, Ég sé þig og fleiri og fleiri. Einar hefur þó nokkuð fágæta stöðu í hópi dægurlagahöfunda á Íslandi þar sem hann er einn örfárra höfunda á Íslandi sem aldrei hefur flokkast sem flytjandi enda hefur hann aldrei gefið út efni undir eigin nafni eða komið fram sem slíkur.

Einar stendur í fleiri stórræðum því hann stendur í miðjum stormi með konu sinni gegn Orkuveitunni. Þar hefur hann verið ötull talsmaður konu sinnar og staðið sem klettur henni við hlið.

Í tilefni áfangans er verið að vinna hljómplötu með vinsælustu lögum Einars þar sem hann mun taka þátt í flutningnum. Þá verða útgáfutónleikar í tengslum við útgáfu plötunnar sem fara fram í nóvember en þar mun Einar koma fram ásamt völdu tónlistarfólki og nokkrum valinkunnum söngvurum sem bæði hafa unnið með Einari áður og öðrum sem aldrei hafa tekist á við efni höfundar áður. Á tónleikunum mun Einar fara yfir sögurnar á bak við sín vinsælustu lög og flytja þau með sínu nefi ásamt vinum og félögum.