„Þetta leggst bara ágætlega í mig,“ segir Magnea J. Matthíasdóttir, þýðandi og rithöfundur, um sjötíu ára stórafmæli sitt í dag. „Þetta er auðvitað miklu betri kostur en hinn, að verða ekki sjötugur. Afmæli eru yfirleitt ánægjuleg þótt maður hafi haldið mismikið upp á þau í gegnum tíðina.“

Í tilefni tímamótanna býður Magnea fjölskyldu sinni og vinum til afmælisveislu og þykir verst að koma ekki enn þá fleirum fyrir í húsinu. Það er þó meira í gangi hjá Magneu sem er í þann mund að senda frá sér ljóðabók.

„Þetta er svona samtíningur yfir lengra tímabil,“ segir hún. „Ég reyndi að taka saman gömul og ný ljóð og færa þau saman.“

Bækur Magneu á borð við Hægara pælt en kýlt og Sætir strákar vöktu athygli og umtal á áttunda og níunda áratug síðustu aldar en hún hefur í seinni tíð einbeitt sér að ævistarfi sínu sem þýðandi.

„Guð minn almáttugur, það er orðið svolítið síðan,“ svarar Magnea aðspurð um hvenær hún hafi gefið út sína síðustu bók, en síðasta skáldsaga hennar, Sætir strákar, kom út 1981. „Ég hef nú alltaf verið að yrkja en hef kannski ekki verið að birta mikið af því. Ég er með fulla kassa og tölvur af þessu. Ég fór að tína þetta saman í einhverri tiltekt og gæla við hugmyndina um að gefa ljóðin út, hætti við það, hætti við að hætta við og tók nokkra snúninga – þetta er stór ákvörðun.“

Borgarlífið og kettir

Þegar kófið skall á og afmælið nálgaðist ákvað Magnea að láta slag standa og gefa sjálfri sér og öðrum sem kunna að hafa áhuga afmælisgjöf.

„Þá var ég komin með dálítinn ramma til að vinna með, lét aldur ljóðanna ekkert þvælast fyrir mér, hvort þau væru ný eða gömul, en reyndi að raða þeim þannig að þau drægju upp mynd af vegferð og borgarumhverfi en líka árstíðum.“

Bókin ber heitið Þar sem malbikið endar og lýsir Magnea ljóðunum sem borgar- og mannlífsmyndum ásamt fleiri pælingum.

„Þetta er bæði gamalt og nýtt og ég reyndi að ná hálfgerðum árshring,“ útskýrir hún. „Að öðru leyti mætti kannski segja að kettir koma þarna nokkuð við sögu.“

Þýðingarsagan í sálmunum

Samhliða bókaútgáfu og þýðingarstörfum er Magnea að vinna að doktorsritgerð í þýðingafræði sem hún vonast til að klára með tíð og tíma. Við rannsóknarvinnuna segir hún að margt hafi komið á óvart, of margt til að tíunda það hér.

„Fyrir örþjóð eins og Íslendinga hafa þýðingar verið frá upphafi byggðar gríðarlega mikilvægar, ekki bara til að veita inn nýjum hugmyndum og straumum heldur ekki síður til að endurnýja málið og viðhalda því,“ segir Magnea.

„Það á við á öllum sviðum þjóðlífsins og ég leyfi mér að fullyrða að við ættum ekki tungumálið okkar ef við þýddum ekki á það heldur hefðum tapað því fyrir löngu. Það mætti segja að þýðingarsagan okkar og þróun hennar speglist í þeim og ekki síður hvernig ný bókmenntagrein verður til og tekur á sig mynd innan bókmenntakerfisins með þýðingum.“