Símtal, eitt af mörgum í erli dagsins, það var konan mín sem hringdi, minn kæri vinur Runni var látinn. Ég hreinlega náði þessu ekki, fór heim, þá skall það á mér eins og þruma að ferðalag okkar Runna væri á enda, við yrðum ekki samferða lengur. 

Ég kynntist Runna á billjardstofunni á Klapparstíg, ég var átján og hann nítján, þar hófst ferðalagið okkar saman. Lífið snerist mikið um að skemmta sér á þessum tíma sem varð nú sennilega til þess að Runni fór að starfa sem áfengisráðgjafi og rak síðar meðferðarstöð í Svíþjóð ásamt konu sinni Lísu. 

Þegar ég hugsa til baka rifjast upp ýmis ævintýri, mörg þeirra ekki til frásagnar hér, engu að síður ótrúlegar minningar. Ég bjó í Kaupmannahöfn um tíma seint á áttunda áratug síðustu aldar. Runni var ekki lengi að birtast í því partíi og þaðan var ferðast í allar áttir. Fljótlega eftir að við snerum aftur heim til Íslands unnum við saman í hellusteypu fyrir austan fjall í einhverja mánuði.

Þegar skemmtanalífið á þessum árum var farið að snúast upp í andhverfu sína þá var það Runni sem var fremstur í flokki við að ýta á mig til að snúa við blaðinu og byrja nýtt líf. Árið var 1984, hann hafði kynnst NA og hvatti mig óspart ásamt Hirti frænda til að koma og vera með í því allsgáða ferðalagi. Það tók dágóðan tíma en hann gafst ekki upp og fyrir það er ég honum ævinlega þakklátur. Við hófum nýtt og frábært ferðalag.

Nokkrum árum síðar kynntist ég Þóru konu minni og æskuvinkonu Lísu, ný tenging, ný ævintýri, nýtt ferðalag. Tvöfalt brúðkaup, yndislega eftirminnileg ferð á fjarlægar slóðir suður fyrir miðbaug. Tveimur árum síðar lék lánið við okkur aftur, við eignuðumst Laufeyju og þau Óskar. Við vorum ríkir menn. Ég man eftir spjalli við Runna þar sem við hlógum og gerðum grín að því að við yrðum á sjötugsaldri að ferma börnin. 
Nú er allt breytt. Við Runni verðum ekki samferða lengur, ekki í þessari tilveru. Minn kæri vinur verður í huga mínum og hjarta að eilífu. 
 
Funeral Blues
Stop all the clocks, cut off the telephone,
Prevent the dog from barking with a juicy bone,
Silence the pianos and with muffled drum
Bring out the coffin, let the mourners come.
Let aeroplanes circle moaning overhead
Scribbling on the sky the message ‘He is Dead’.
Put crepe bows round the white necks of the public doves,
Let the traffic policemen wear black cotton gloves.
He was my North, my South, my East and West,
My working week and my Sunday rest,
My noon, my midnight, my talk, my song;
I thought that love would last forever: I was wrong.
The stars are not wanted now; put out every one,
Pack up the moon and dismantle the sun,
Pour away the ocean and sweep up the wood;
For nothing now can ever come to any good.
 
Dýpstu samúðarkveðjur frá okkur til elsku Lísu, Bjarna, Óskars og fjölskyldunnar.

Kristján Aðalsteinsson