Umræðan um rjúpuna hefur verið ofarlega á baugi undanfarnar vikur enda hefst veiðitímabilið á mánudaginn. Fyrr í vikunni kom út bókin Gengið til rjúpna þar sem Dúi Landmark gerir fuglinum skil frá ýmsum hliðum.

„Rjúpan er áhugaverður fugl að svo mörgu leyti og hefur tengingar við íslenska þjóðarsál í allar áttir,“ segir Dúi. „Kveikjan að þessari bók var annars vegar að deila þeirri upplifun sem það er að ganga til rjúpna og hins vegar að gera grein fyrir þessum margþættu tengingum sem fuglinn hefur við þjóðarsálina.“

Dúi er rjúpunni vel kunnugur en hann fór fimmtán ára gamall í sína fyrstu veiðiferð af mörgum. Sem kvikmyndagerðarmaður tók hann að sér að vinna að skotveiðimyndum hér heima, þar á meðal af rjúpunni, auk þess sem hann var í stjórn Skotvís í fjögur ár, þar af tvö sem formaður.

„Uppleggið var að fjalla um rjúpuna frá sem flestum hliðum, bæði fyrir skemur og lengra komna veiðimenn sem myndu finna efni við sitt hæfi, en líka fyrir almenning sem er forvitinn um málefnið og þá sérstaklega söguna,“ segir Dúi.

Aldagömul hefð

Í bókinni kennir ýmissa grasa. Þar er meðal annars farið yfir undirbúning veiðiferðarinnar, skotveiðileyfi, hvers konar vopn eru notuð, hvernig eigi að haga sér á veiðislóð, hvernig skuli lesa landið og hver munurinn sé á rjúpnaveiði með og án hunds. Sá kafli sem Dúi segir að hafi verið hvað forvitnilegast að skrifa er um sögu rjúpnaveiða á Íslandi.

Lukkulegir og stoltir veiðimenn á Ísafirði árið 1916.
Myndasafnið á Ísafirði / úr safni Björns Pálssonar

„Sú saga teygir sig mjög langt aftur, eiginlega alla leið að landnámi og fram á okkar daga,“ segir hann. „Þar segir frá fyrstu rjúpnaveiðimönnum landsins, bræðrunum Helga og Grími, sem koma fyrir í Fljótsdæla sögu. Síðan er farið í gegnum þjóðsögurnar, hvenær skotvopnin komu til sögunnar og síðan hvernig neyslu- og veiðihefðin myndaðist hérna heima fyrir.“

Matargerðinni eru svo gerð góð skil þar sem þrír stjörnukokkar gefa uppskriftir að rjúpunni; þau Úlfar Sveinbjörnsson, Nanna Rögnvaldardóttir og Snædís Jónsdóttir. Þá er einnig að finna uppskriftir frá Jóni Pálmasyni á Sauðárkróki að þurrkaðri rjúpu, rjúpnasnafs og fleira til.

Að lokum eru svo teknar saman veiðisögur héðan og þaðan. „Sögurnar eru svo stór hluti af veiðimenningunni,“ segir Dúi. „Talsvert mikið af góðu veiðifólki hefur lagt mér til sögur, bæði karlar og konur, en sú ánægjulega þróun hefur átt sér stað að hlutur kvenna hefur aukist á undanförnum árum.“

Dúi segir að mikil spenna sé í veiðisamfélaginu fyrir því að veiðitímabilið hefjist á mánudaginn. „Við hlökkum öll til og erum fegin að það sé aftur orðið hægt að veiða rjúpu,“ segir hann. „Annað hefði svo sem verið algjört glapræði. Það má segja að fyrir mörg okkar þá sé þetta upptakturinn fyrir jólin og undirbúningur þeirra hefjist þar.“