Bænda­blaðið stendur frammi fyrir rit­stjóra­skiptum þann 1. júní næst­komandi þegar Guð­rún Hulda Páls­dóttir tekur við af Herði Kristjáns­syni. Hún er miðlinum vel kunnug, hafandi sinnt marg­vís­legum störfum á Bænda­blaðinu síðast­liðin sjö ár.

„Þetta er risa­stór á­skorun en leggst vel í mig. Ég tek við blóm­legu búi af Herði Kristjáns­syni, frá­farandi rit­stjóra, því blaðið er stöndugt og stöðugt,“ segir Guð­rún Hulda, sem telur að það hljóti að heyra til undan­tekninga að land­búnaðar­miðaður prent­miðill sé meðal þeirra stærstu hjá einni þjóð. „Það segir mikið um það ó­trú­lega starf sem Hörður hefur unnið á undan­förnum árum.“

Ferskur and­blær

Bænda­blaðið kemur út hálfs­mánaðar­lega í prent­formi og er upp­lagið að jafnaði 32.000 ein­tök auk þess sem miðillinn heldur úti vef­síðunni bbl.is. Guð­rún Hulda segir stöðu blaðsins sterka og hafandi staðið að út­gáfunni undan­farin ár tali hún ekki fyrir rót­tækum breytingum á miðlinum.

„Á­fram á hlut­verk Bænda­blaðsins að vera miðlun upp­lýsandi fregna af land­búnaði og fjöl­breyttum mál­efnum honum tengdum á skýran og heiðar­legan hátt, miðla fag­legum upp­lýsingum auk þess að vera vett­vangur á­huga­verðra skoðana­skipta,“ segir hún en bætir við að þó séu tæki­færi til að gera blaðið enn betra. „Með nýju fólki kemur nýr and­blær og við erum núna að falast eftir liðs­auka í hópinn okkar sem við viljum að geti sett sitt mark á blaðið.“

Stolist í úti­legu

Guð­rún Hulda er bú­sett í Hvera­gerði þar sem hún ræktar æti­garð sem hún elskar að dunda sér við þegar hún er ekki að vinna. Í hjá­verkum spilar hún á kontra­bassa og er þessa dagana að vinna í plötu með Berg­þóru Einars­dóttur, ljóð­skáldi og rappara, sem von er á síðar á árinu.

Þótt hún sjái ekki fram á langt sumar­frí vonast Guð­rún Hulda þó eftir að geta laumast í úti­legu með Ey­vindi Páli, syni sínum. „Við vitum fátt skemmti­legra en að gal­gopast eitt­hvað í tíma­leysi og leika okkur úti,“ segir hún.