Bændablaðið stendur frammi fyrir ritstjóraskiptum þann 1. júní næstkomandi þegar Guðrún Hulda Pálsdóttir tekur við af Herði Kristjánssyni. Hún er miðlinum vel kunnug, hafandi sinnt margvíslegum störfum á Bændablaðinu síðastliðin sjö ár.
„Þetta er risastór áskorun en leggst vel í mig. Ég tek við blómlegu búi af Herði Kristjánssyni, fráfarandi ritstjóra, því blaðið er stöndugt og stöðugt,“ segir Guðrún Hulda, sem telur að það hljóti að heyra til undantekninga að landbúnaðarmiðaður prentmiðill sé meðal þeirra stærstu hjá einni þjóð. „Það segir mikið um það ótrúlega starf sem Hörður hefur unnið á undanförnum árum.“
Ferskur andblær
Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega í prentformi og er upplagið að jafnaði 32.000 eintök auk þess sem miðillinn heldur úti vefsíðunni bbl.is. Guðrún Hulda segir stöðu blaðsins sterka og hafandi staðið að útgáfunni undanfarin ár tali hún ekki fyrir róttækum breytingum á miðlinum.
„Áfram á hlutverk Bændablaðsins að vera miðlun upplýsandi fregna af landbúnaði og fjölbreyttum málefnum honum tengdum á skýran og heiðarlegan hátt, miðla faglegum upplýsingum auk þess að vera vettvangur áhugaverðra skoðanaskipta,“ segir hún en bætir við að þó séu tækifæri til að gera blaðið enn betra. „Með nýju fólki kemur nýr andblær og við erum núna að falast eftir liðsauka í hópinn okkar sem við viljum að geti sett sitt mark á blaðið.“
Stolist í útilegu
Guðrún Hulda er búsett í Hveragerði þar sem hún ræktar ætigarð sem hún elskar að dunda sér við þegar hún er ekki að vinna. Í hjáverkum spilar hún á kontrabassa og er þessa dagana að vinna í plötu með Bergþóru Einarsdóttur, ljóðskáldi og rappara, sem von er á síðar á árinu.
Þótt hún sjái ekki fram á langt sumarfrí vonast Guðrún Hulda þó eftir að geta laumast í útilegu með Eyvindi Páli, syni sínum. „Við vitum fátt skemmtilegra en að galgopast eitthvað í tímaleysi og leika okkur úti,“ segir hún.