Þrír kálfar úr sömu kúnni komu í heiminn í Miðskógi í Dalabyggð fyrir viku. Samkvæmt íslenskri rannsókn gerist slíkt í 20.000. hverjum burði að meðaltali.

„Kálfarnir eru hinir bröttustu. Þeir byrjuðu á að fá broddmjólkina úr pelum en nú eru þeir farnir að drekka úr fötum,“ segir Guðrún Esther Jónsdóttir um litlu þríkelfingana sem eru vikugamlir í dag. Guðrún Esther býr í Miðskógi í Dalabyggð með manni sínum, Skúla Guðbjörnssyni. „Við sáum að kýrin Mjöll var að kenna sín en fundum að kálfinn bar öfugt að svo við hringdum í dýralækninn okkar. Hann var lasinn en Hjalti Viðarsson kom frá Stykkishólmi. Honum fannst allt eitthvað skrítið og dró kálfinn öfugan út. Það var naut. Svo náði hann í næsta kálf, sem var kvíga, hún sneri rétt. Hjalti vildi athuga kúna betur og ég hélt hann væri að ljúga að mér þegar hann sagði að þriðji kálfurinn væri þarna. En þriðja kálfinn dró hann út, naut sem sneri öfugt líka.“

Guðrún Esther segir kálfana frekar smáa, þó engar píslir. „Kýrin var ekki komin á tal, átti ekki að bera fyrr en 20. en það var heppni að hún gekk ekki lengur með,“ segir hún. Nú hafa kálfarnir sér stíu en mamman þurfti að hressa sig svolítið og fara út, að sögn Guðrúnar Estherar. „Hún var spræk fyrstu tvo dagana, aðeins dösuð á þriðja degi en nú er hún á röltinu.“ Mjöll er fjögurra vetra og þetta er annar burðurinn hennar. E–n býst hún vel til? „Já, það er heilmikil mjólk í henni. Hún er komin í 15-18 kíló.“

Miðskógur er í Mið-Dölum og Guðrún Esther segir hana ágætisjörð. „Við höfum búið hér í sex ár, komum frá Akranesi en ég er ættuð úr Dalasýslu og Skúli úr Húnaþingi vestra.“ Hún segir þau vera með um 50 mjólkandi kýr sem séu úti á daginn nema ef sólin er of mikil þá séu þær úti í nóttunni.

Móðirin Mjöll er í eigu skáömmubarns hjónanna, sem nefndi hana eftir sínu höfði.
Þetta eru nú meiri krúttin!