Ómur af söng næturdrottningarinnar úr Töfraflautunni berst mér þegar ég mæti í Hörpu til fundar við ungt tónlistarfólk sem treður upp með Sinfóníunni í kvöld. Það eru Harpa Ósk Björnsdóttir, Silja Elsabet Brynjarsdóttir, Hjörtur Páll Eggertsson og Guðbjartur Hákonarson sem urðu hlutskörpust í einleikarakeppni Sinfóníunnar í haust í samvinnu við Listaháskólann.

Í æfingahléi hitti ég fyrst Hörpu Ósk sópran sem átti hina fögru tóna. „Ég syng þrjú lög, enda á Næturdrottningunni eftir að öskra úr mér lungun í laginu á undan. Var pínu smeyk við það fyrst en hún er föst í vöðvaminninu svo hún bara kemur,“ segir hún. Kveðst hafa verið fengin í hlutverkið Þegar Söngskólinn setti upp Töfraflautuna í Hörpu 2017.“ Hún er nýlega byrjuð í Listaháskólanum og útskrifast sem rafmagnsverkfræðingur í næsta mánuði.

Silja Elsabet mezzósópran er fædd og uppalin í Eyjum, þar kveðst hún hafa verið í barnakór, tónlistarskóla og leikfélaginu. „Ég söng popp- og söngleikjamúsík en flutti til Reykjavíkur tvítug og byrjaði í Söngskólanum. Ætlaði á söngleikjabrautina en leiddist óvart út á þá klassísku og þá varð ekki aftur snúið,“ segir Silja sem er að ljúka BA-gráðu við Royal Academy of Music í London og ætlar síðan í óperudeildina þar.

Hjörtur Páll sellóleikari byrjaði fjögurra ára í Suzukiskólanum. „Eldri systkini mín höfðu öll lært á fiðlu, ég átti að gera það líka en heyrði upptöku með sellóleikaranum Pablo Casals og frá þeim degi langaði mig að læra á selló.“ Hjörtur er á öðru ári við Konunglega tónlistarháskólann í Kaupmannahöfn, eftir nám í tónlistarskólanum í Reykjavík hjá Sigurgeiri Agnarssyni og Gunnari Kvaran. Kom bara heim til að spila á tónleikunum í kvöld.

Guðbjartur fiðluleikari er líka að koma langt að. Hann segir foreldra sína áhrifavalda. „Pabbi er tónelskur verkfræðingur og mamma flautuleikari. Þegar ég var fimm ára valdi ég fiðluna úr nokkrum kostum og var heppinn því kennarinn sem ég byrjaði hjá í Tónlistarskólanum í Reykjavík, Gígja Jóhannsdóttir, reyndist mér svo afskaplega vel.“ Nú er Guðbjartur í Indiana University Jacobs School of Music og lýkur BA-gráðunni í vor.

gun@frettabladid.is