Við erum með þróttmikið starf. Unglingarnir koma til okkar frá Félagsþjónustu og Vinnumálastofnun og við erum með tuttugu og einn á skrá núna, bæði í námi og starfi,“ segir Þorvarður Guðmundsson, kallaður Þorri. Hann er forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum, sem grundvölluð var fyrir tíu árum og hóf starfsemi í mars 2011.

Þorri hefur stýrt Fjölsmiðjunni í sex ár og segir um fjölbreytt verkefni að ræða þar. „Við erum með nytjamarkað sem heitir Kompan, tókum hann í gegn fyrir stuttu og salan sér okkur fyrir rekstrarfé. Opnuðum líka hjólaverkstæði í sumar og erum að setja af stað saumaverkefni í samstarfi við Rauða krossinn. Þannig erum við að bregðast við atvinnuástandinu. Því miður erum við nefnilega ekki að útskrifa fólk til vinnu annars staðar núna, eins og við höfum gert gegnum árin. Við leggjum líka áherslu á að unga fólkið sé í námi, ýmist í Fjölbrautaskólanum eða á vegum Miðstöðvar símenntunar, auk þess sem skjólstæðingar okkar sækja ýmis námskeið. Þetta er virkniúrræði, við reynum að hafa verkefni við hæfi fyrir hvern og einn og þannig stuðla að því að allir séu á réttri leið fram á við.“

Vinnuframlag unga fólksins felst meðal annars í að sinna nytjamarkaðinum og hjólaviðgerðum, að sögn Þorvaldar. Einnig að gera upp gömul húsgögn, fara yfir raftæki og afeinangra víra. „Svo rekum við eldhús þar sem framreiddur er bæði morgunmatur og hádegismatur fyrir þá sem hér eru. Ég er að stýra eldhúsinu núna á sama tíma og ég er að tala við þig! Við rekum líka sendibíl sem er á fullu allan daginn, nú er hann í búslóðaflutningum úti í bæ,“ lýsir hann.

Húsakynni Fjölsmiðjunnar eru að Smiðjuvöllum 5. Þorri segir fólk stoppa þar misjafnlega lengi. „Þetta er ekki eilífðarstoppistöð, heldur ýtum við fólki áfram þegar það er hægt. Á fyrstu árunum fengum við fólk sem hafði ekki verið í virkni lengi, þá tekur meiri tíma að komast í gírinn, en nú er meðaltíminn hjá okkur svona 16 til 18 mánuðir. Mætingarskylda? Já, það er lykilatriði að ungmennin fái borgað fyrir sína vinnu og þau sem eru í skóla eru atvinnunámsmenn og fá hér aðstoð við heimanám, eftir þörfum.“

Á reiðhjólaverkstæði Fjölsmiðjunnar geta handlagnir haft nóg fyrir stafni.
Nytjamarkaðurinn Kompan er nýtekin í gegn og þar er margt fallegt að finna.