Félag trérennismiða á Íslandi var stofnað fyrir um 27 árum og eins og nafnið gefur til kynna samanstendur hópurinn af atvinnu- og áhugamönnum um trérennsli. Formaður félagsins, Örn Ragnarsson, segir töluverða hreyfingu í sölu á rennibekkjum og þvíumlíku gefa til kynna að iðjan sé í vexti hérlendis.

„Það skila sér kannski ekki allir í félagið, en þetta er algengt tómstundagaman og félagsstarf,“ segir Örn. „Í félaginu eru núna um 215 manns en voru í kringum 400 þegar mest lét.“

Örn byrjaði sjálfur að renna fyrir um tíu árum síðan.

„Ég sá fram á að ég yrði eftirlaunaþegi og fór að svipast um eftir einhverju til að dunda við þegar ég hætti störfum,“ segir Örn sem starfaði áður í 30 ár sem kennari og í 13 ár hjá Rauða krossinum. „Ég fékk að prófa bekk hjá félaga mínum í Dalshrauninu og þá varð ekki aftur snúið.“

Síðan þá hefur Örn farið á þó nokkur námskeið erlendis til að fínpússa handtökin.

„Það er mikið af skólum sem sérhæfa sig í einhverju sérstöku,“ segir hann. „Ég hef til dæmis farið á tvö námskeið á Írlandi þar sem ég lærði af heimsfrægum trérennismið, Glenn Lucas, hvernig maður smíðar skálar.“

Fagnaðarerindið boðað

Sjálfur er Örn hluti af hópi tólf rennismiða í Hafnarfirði sem leigja saman vinnustofu í Dalshrauni. „Hér erum við allir hver með sinn rennibekk,“ segir hann. „Þótt sumir vinni auðvitað einir heima þá er í mínum huga félagsskapurinn við aðra rennismiði ekki síst það sem ýtir undir að maður fari út úr húsi og á verkstæðið.“

Örn tók við formennsku félagsins í ágúst og hefur hugmyndir um að nýta félagið til að efla handverk eldri borgara um land allt.

„Það er ekki nóg að bjóða upp á kynningar hér á höfuðborgarsvæðinu, heldur hef ég haft samband við sveitarfélög úti á landi þar sem ég hef boðið að koma og kynna félagið okkar og rennismíði fyrir fólki,“ segir Örn sem hefur herferðina á Norður- og Vesturlandi í janúar. „Við byrjum væntanlega á Hvammstanga, svo verður það Akureyri og Ólafsvík.“

Áhugasömum um rennismíði bendir Örn á að allir séu velkomnir við verkstæðið á Dalshrauni 12 þar sem hann er með aðstöðu. „Ég mæti alltaf hingað klukkan 10 og er í þrjá til fjóra tíma. Við tökum vel á móti fólki og það er heitt á könnunni,“ segir hann. „Svo er hægt að koma á fundi félagsins sem eru síðasta laugardag hvers mánaðar en í febrúar fáum við einmitt erlendan gest sem mun koma og sýna listir sínar fyrir okkur.“