Í kvöld lendir Marsjeppi NASA, Þrautseigja (e. Perseverance), á plánetunni Mars. Hlutverk hans er meðal annars að rannsaka hvort ummerki um örverulíf megi finna á plánetunni.

Þrautseigja lagði af stað í 480 milljón kílómetra ferðalag sitt 30. júlí síðastliðinn, en ásamt jeppanum verður þyrlan Hugvit (e. Ingenuity). Gangi allt að óskum verður hún fyrsta flugfar mannkyns á annarri plánetu.

Í tilefni lendingarinnar standa Háskólinn í Reykjavík og Geimvísindastofnun Íslands fyrir viðburði á vefnum þar sem hægt verður að fylgjast með höfuðstöðvum NASA á meðan á lendingunni stendur og hlusta á fræðimenn ræða um verkefnið.

„Þetta er mikilvægt skref í langri og mikilli sögu af tilraunum okkar til að kanna og skilja betur sólkerfið,“ segir Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík, sem stýrir viðburðinum. „Þetta skiptir okkur á jörðinni afskaplega miklu máli. Að skilja hvernig sólkerfið hefur og mögulega mun þróast, og svo er þetta líka okkar næsta umhverfi.“

Ari er verkefnum sem þessum ansi kunnugur en hann stýrði áður þróunarteymi NASA fyrir hugbúnað á Mars-jeppunum Spirit og Opportunity. Hann segir áhuga á Mars hafa komist á nýtt stig síðustu tvo áratugi.

„Mars er miklu áhugaverðari pláneta en áður var talið,“ segir hann. „Þar rann vatn í fortíðinni og það eru allar líkur á því að það hafi verið aðstæður fyrir líf þar á einhverjum tímapunkti. Það er ekkert útilokað að það sé eitthvað sem þrífist þarna enn þá. Lending Þrautseigju er stórt skref í að svara þessum stóru spurningum vísindanna.“

Ísland hefur þjónað mikilvægu hlutverki í geimvísindum í gegnum árin, en flestir hafa heyrt af æfingum Apollo-tunglfaranna í Þingeyjarsýslu. Á undanförnum árum hefur NASA einnig prufukeyrt Mars-jeppa á Íslandi þar sem aðstæður eru svipaðar og á yfirborði Mars.

„Geimferðir eru bæði flóknar og dýrar, og þess vegna er mikilvægt að undirbúa þær sem best,“ segir Ari. „Þá er mikilvægt að finna staði á jörðinni sem eru jafnlíkir áfangastaðnum og finna má. Á Íslandi má finna margar jarðfræðilegar hliðstæður og á Mars sem henta geysilega vel til tilrauna og æfinga.“

Ásamt Ara munu stjörnulíffræðingurinn Angélica Anglés og geimvísindamaðurinn Michael Thorpe ávarpa áhorfendur í streyminu.

„Þau eru bæði á kafi í þróun þessara hluta, og ég verð að viðurkenna að ég hlakka sjálfur mikið til að hlusta á hvað þau hafa að segja,“ segir Ari. „Þau munu tala við okkur um það hvernig líf gæti verið að þróast á öðrum stöðum en jörðinni og svo hvernig sýnataka á Mars muni fara fram. Þetta verður ótrúlega áhugavert.

Streymið, sem hefst klukkan 19 í kvöld, verður aðgengilegt í gegnum Facebook-síðu Háskólans í Reykjavík. „Ég vil hvetja fólk til að fylgjast með lendingunni og kynna sér nánar aðrar nýjungar í geimvísindum,“ segir Ari. „Það er nánast eitthvað nýtt að gerast í hverri viku. Ég held það hafi aldrei verð jafn spennandi tími til að kanna sólkerfið og einmitt núna.“

Prófanir á Marsjeppum í umhverfi Langjökuls árið 2019. Þar svipar umhverfinu til yfirborðs Mars. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Ari Kristinn Jónsson