Viðburðaröðin Menning á miðvikudögum, sem fer fram vikulega á ýmsum stöðum í Kópavogi, beinir nú sjónum sínum sérstaklega að umhverfismálum með sérstakri áherslu á líffræðilega fjölbreytni. Til að hefja leikinn verður hádegisfyrirlestur í Náttúrufræðistofu Kópavogs í dag þar sem Skúli Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum og Náttúruminjasafn Íslands og fyrrverandi rektor á Hólum, mun flytja erindi.

„Líffræðileg fjölbreytni er í geysilegri hættu á jörðinni,“ segir Skúli og vísar til vinnu Sameinuðu þjóðanna á undanförnum árum og áætlunargerðar þeirra tengdrar málefninu. „Ég ætla aðeins að gera grein fyrir því hvernig loftslagsmálin, mengun og önnur röskun spila þar inn í. Í rauninni er stóra vandamálið viðhorf okkar gagnvart náttúrunni. Við í vestræna heiminum eigum það til að stilla okkur upp fyrir utan náttúruna og gleymum því að við erum hluti af henni.“

Einstök náttúra

Í erindinu hyggst Skúli ræða hvernig líffræðileg fjölbreytni er skilgreind sem felst meðal annars í fjölda tegunda og fjölbreytileika innan þeirra á borð við afbrigði, stofna, einstaklinga og annað slíkt.„Íslensk náttúra er ansi sérstök að því leyti að það er svo mikill fjölbreytni innan tegunda,“ segir hann.

„Ísland er í rauninni eins og rannsóknarstofa þar sem er hægt að skoða hvernig líffræðileg fjölbreytni verður til, þessi kvikleiki náttúrunnar.“Sem dæmi um hvaða hættur steðja að líffræðilegri fjölbreytni mun Skúli vísa til fræðilegs bakgrunns síns sem liggur í ferskvatnsrannsóknum.

„Hvar sem fæti er drepið niður á jörðinni í dag er líffræðileg fjölbreytni í ferskvatni í hættu. Það á við um Ísland þó svo að við teljum okkur vera í betri stöðu en margar aðrar þjóðir,“ segir hann.

„Loftslagsáhrifin eru þar einn stærsti þátturinn sem hefur áhrif á vistkerfi, en vistkerfi eru auðvitað forsenda þess að við höfum lifibrauð á borð við súrefni og hreint vatn. Að hrófla við líffræðilegri fjölbreytni með einhverjum hætti getur verið fyrsta skrefið í að þessi vistkerfi hrynji.“

Áríðandi starf

Spurður um þær aðgerðir sem standi yfir þessa dagana segir Skúli að umhverfisráðuneytið stýri núna áætlunargerð um líffræðilega fjölbreytni, sem sé þátttaka í átaki Sameinuðu þjóðanna um að búa til markmið um verndun líffræðilegrar fjölbreytni á jörðinni næstu tíu árin.

„Þótt sú vinna sem hér er í gangi sé afar áríðandi til að koma málunum í það horf sem við kjósum, þá er þekking okkar og stefnumótunin brotakennd,“ segir hann.

„Þess vegna bindum við sem vinnum að þessu miklar vonir við að þetta takist.“ Hvernig sem litið sé á málin sé ljóst að það þarf að stórauka rannsóknir og vöktun líffræðilegrar fjölbreytni hérlendis.Að lokum bendir Skúli áhugasömum á að kynna sér samvinnuvettvanginn Biodice sem beitir sér fyrir eflingu vitundar og skilnings á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi.

„Þetta er verkefni sem fræðimenn, nemendur og áhugafólk um þessi mál á Íslandi eru að vinna að til að styðja við bakið á stjórnvöldum, menntakerfinu og rannsóknarheiminum í þessum málum.“