Kjartan Ólafsson tónskáld varð að brjóta eigin tónsmíðareglur til að semja nógu hæga og afslappaða slökunartónlist, en í ljós kemur að hún hefur lækningamátt, að hans sögn.

Það eru tímamót í lífi Kjartans Ólafssonar tónlistarmanns sem hvað kunnastur er fyrir sígilda lagið sitt La líf, en fyrir skömmu hóf hann að semja hugleiðslu- og heilunartónlist, eitthvað sem hann ætlaði sér aldrei að gera í lífinu.

En svona er þá la líf í rauninni. „Ég varð fyrir miklum þrýstingi frá konunni minni sem er á fullu í þessum andlegu málum eins og svo margir í dag, svo ég varð bara að svara kallinu. Og hana nú,“ segir raftónlistarmaðurinn kunni, sem lærði fræði sín í Hollandi um árið.

Nokkrar atlögur

En það gekk ekkert í fyrstu. Konan hafnaði hverri hugmyndinni af annarri. „Henni þótti efnið ekki vera nógu hugleiðslulegt,“ heldur Kjartan áfram og ekki er laust við að greina megi nokkra höfnunartilfinningu í þessum orðum tónskáldsins.

„Svo þetta voru nokkrar atlögur, vittu til, eða öllu heldur nokkuð margar atlögur,“ bætir hann við, en það kom þó að því að konan gaf honum grænt ljós. „Þá hitti ég sumsé á réttu taugina,“ útskýrir þolinmóði eiginmaðurinn á heimili þeirra hjóna í Einarsnesi – og kveðst með öðrum orðum hafa komist að leyndarmálinu. „Mér tókst að lokum að semja laglínur sem voru nógu hægar og mjúkar, eða mér liggur við að segja afslappaðar.“

Braut eigin reglur

En þetta var tónskáldinu erfitt, raunar afar þungt, því fyrir vikið þurfti það að breyta öllum þeim reglum sem Kjartan Ólafsson tónsmíðakennari hefur kennt nemendum sínum í tónlistarskóla um langt árabil.

„Ég endaði í algerri mótsögn við sjálfan mig, ef svo má segja. Ég neyddist bókstaflega til að brjóta allar mínar helgu tónlistarreglur til að hægja nógu mikið á músíkinni. Og það tókst með semingi, skulum við segja,“ rifjar Kjartan upp, en vel að merkja, konan var ánægð, loksins ánægð – og það skiptir auðvitað máli á heimilinu í Einarsnesi.

„Á endanum var þetta svolítið eins og að semja á nýjaleik lagið La líf sem fólst einmitt í því að brjóta reglurnar,“ og Kjartan líkir þessu við að fara út í eyðimörkina, einn með sjálfum sér og uppgötva innri mann upp á nýtt.

Læknandi músík

Útkoman liggur fyrir á Spotify og hentar að sögn tónskáldsins – og konu þess, vel að merkja – alveg einstaklega vel til slökunar og jafnvel gott betur, djúpslökunar, en Kjartan notast við nýstárlega gervigreind við smíðarnar.

„Og viti menn,“ segir hugleiðslutónskáldið splunkunýja, „tónlistin hefur þegar vakið umtal og marga til umhugsunar. Og það er líka svo merkilegt að músíkin virðist virka mjög vel á börn sem eru með þroskafrávik og eru jafnvel á einhverfurófi.“

Þetta langar hann að rannsaka frekar – og er í því efni kominn í kompaní við Friðrik Karlsson, einn helsta frumherja landsmanna í slökunartónlist svo að hugmyndin upphaflega er heldur betur farin að vinda upp á sig.

„Ég geri mér vonir um að tónlist af þessu tagi geti í framtíðinni komið að einhverju leyti í stað lyflækninga,“ segir Kjartan Ólafsson.