Jón Þór Einarsson rafvirki er einn átta Íslendinga sem keppa í iðngreinum í Euroskills-keppninni í Búdapest sem hófst á miðvikudag. Samtals 525 keppendur frá 28 löndum taka þátt í 35 greinum í Euroskills. Alls átta keppendur eru frá Íslandi í hinum ýmsu fögum.

Jón Þór er 24 ára og lauk sveinsprófi fyrir þremur árum. Hann starfar hjá Árvirkjanum á Selfossi. Fram undan er rafmögnuð barátta hjá Jóni Þór við aðra rafvirkja á mótinu.

„Ég tók þátt í Skills Iceland árið 2017 og sigraði í keppni rafvirkja. Þetta er frábært tækifæri og mikill heiður að fá að keppa fyrir hönd Íslands. Þetta er mjög stór keppni og hér er maður að etja kappi við 15 aðra evrópska rafvirkja. Þetta er mikill lærdómur. Ég er búinn að vera að æfa fyrir þetta mót síðustu 12 mánuði og síðustu fjórar vikur hef ég verið á fullu í æfingabúðum. Ég er heppinn að hafa góða yfirmenn í vinnunni sem hafa sýnt þessu mikinn skilning. Þeir fá bara öflugri starfsmann til baka,“ segir Jón Þór.

Keppnin í rafvirkjun skiptist í þrjá liði. Fyrst og fremst er uppsetning og víring á búnaði, síðan forritun á hússtjórnarkerfi og iðntölvu og síðast en ekki síst er bóklegt rafmagnsfræðipróf.

,,Jóhann Rönning hefur styrkt mig mjög sem og Rafiðnaðarsambandið. Ég er með tvo leiðbeinendur, Guðmund Ævar Guðmundsson og Andra Haraldsson, sem hafa staðið sig mjög vel í að leiðbeina mér og þjálfa fyrir þessa keppni. Einnig hafa þeir Hafsteinn Már Ársælsson og Davíð Ingi Guðmundsson leiðbeint mér í hússtjórnunar- og iðntölvuforritun. Bjarni Freyr Þórðarson, sem keppti á Euroskills fyrir tveimur árum, hefur einnig lagt sitt af mörkum til að kenna mér og styðja við bakið á mér. Hann þekkir keppnina af eigin reynslu og getur miðlað mörgu til mín. Ég hlakka bara til að takast á við þessa keppni næstu þrjá daga. Ég ætla að gera mitt allra besta og mikið meira en það,“ segir Jón Þór enn fremur.

Fylgjast má með framvindu keppninnar og gengi Jóns á Euroskills2018.com.