Það eru allir að prjóna. Ég hef fundið það gegnum netverslunina maro.is sem ég hef verið með í eitt og hálft ár. Svo hef ég fengið ótal skilaboð um hvað það sé æðislegt að fá búðina í miðbæinn,“ segir Silja Gylfadóttir spurð hvort vit sé í að opna búð í miðborg Reykjavíkur í miðju kófi. Tilefnið er hin nýja garnbúð hennar, Maro, við Hverfisgötu 39 í Reykjavík.

Silja er nýflutt frá Hornafirði með fjölskyldu og segir eiginmanninn hafa unnið með henni að standsetningu búðarinnar. Hún er hjúkrunarfræðingur að mennt og kveðst hafa verið á báðum áttum með hvort hún ætti að sækja um í þeim geira. „Mig hefur lengi langað að snúa aftur á Landspítalann til klínískra starfa, en netverslunin hefur gengið svo vel að ég tímdi ekki að hætta með hana. Gat ekki gert hvoru tveggja því við erum líka með tvö lítil börn. Það var tvennt sem réði úrslitum um valið. Annað var að mér bauðst húsnæðið hér á Hverfisgötu og svo komu niðurstöður í kjarasamninga hjúkrunarfræðinga frá gerðardómi og þar er óbreytt ástand. Þá hugsaði ég: Allt í lagi, þá ætla ég að prófa að verða búðarkona.“

Garnið flytur Silja að mestu inn frá Danmörku. Hún nefnir líka veski og töskur fyrir garn og fylgihluti sem hún hafi einkasölurétt á. „Svo er ég með handlitað garn og snyrti- og prjónatöskur úr indverskum saríum, kerti, húðvörur og gjafavöru. Ég tel að ég hafi verið dönsk í fyrra lífi því danskar vörur höfða svo til mín.“

Nafnið Maro, hvaðan er það? „Ég á strák sem heitir Gylfi Maron en langaði líka að tengja við hafið, við erum háð því og maðurinn minn er sjómaður,“ svarar Silja. Hún hrósar póstþjónustunni á Íslandi, kveðst senda um allt land og hafa selt mikið til Reykjavíkur meðan hún var á Höfn. „Ef pantanir berast í fyrir hádegi á maro.is eða @maroverslun á Instagram reyni ég að afgreiða þær sama dag og þegar ég var fyrir austan fékk ég oft skilaboð daginn eftir um að pakkinn væri kominn.“

Spurð hvort hún prjóni mikið sjálf svarar Silja: „Aldrei jafn lítið og síðan ég opnaði netverslunina, ég er alltaf í tölvunni í sambandi við viðskiptavinina, að skoða vörur og panta, en þegar ég sest í sófann á kvöldin, finnst mér ómögulegt að hafa ekki prjóna.“