Það er rétt, ég er sjötugur í dag og það er haldið upp á það með eins mörgum og Þórólfur leyfir. Þeir eru tuttugu – en í fyrradag voru það tíu svo gestahópurinn gat stækkað um helming,“ segir Ari Kristinsson kvikmyndagerðarmaður glaðlega og samsinnir því að tuttugu sé ágæt tala í partíi. „Hún sleppur fyrir nánustu fjölskyldu mína, börn og barnabörn og systkini mín og konunnar minnar.“

Inn í nútímann

Eftir Ara liggja ófá afrek á sviði kvikmyndatöku og vinnslu, verkefnalistinn er langur á slóðinni kvikmyndavefurinn.is. Hann vann hjá Kvikmyndasjóði í sjö ár undir lok opinberu starfsævinnar og kveðst hafa verið kominn á 69. aldursár þegar hann hætti þar. „Síðan hef ég fengist við að endurgera myndir,“ upplýsir hann. „Það hefur orðið svo mikil breyting á tækninni og er alveg frábært hversu fullkomin hún er. Nýir möguleikar hafa opnast á að sjá hluti í kvikmyndum sem sáust ekki áður og ég er að reyna að koma gömlu íslensku myndunum inn í nútímann.

Upp á síðkastið kveðst Ari hafa verið að vinna í myndinni Í skugga hrafnsins eftir Hrafn Gunnlaugsson. „Þetta er stórmynd sem var gerð í kjölfar myndarinnar Hrafninn flýgur. Þegar kom að litgreiningu kvikmynda í gamla daga voru peningarnir alltaf búnir, því var lokafráganginum hespað af, þannig var það með þessa mynd og Hrafn var aldrei fullkomlega ánægður með hana,“ lýsir hann og segir stefnt á að Í skugga hrafnsins fari í bíó í haust. „Hún á að koma vel út þar,“ lofar hann. „Í framhaldinu vona ég að ég geti lagað fleiri myndir sem aldrei voru almennilega kláraðar.“

Að bjarga verðmætum

Ari segir gaman að geta valið sér verkefni sjálfur og unnið á þeim hraða sem honum sýnist. „Sumir fara að spila golf, mála vatnslitamyndir eða prjóna þegar um hægist. Ég er lítið að prjóna en mín vinna er samt svolítið svipuð. Ég sit við að föndra og þykist vera að bjarga verðmætum. Kvikmyndasafnið hafði hráskannað myndina sem ég er með núna, þar eru bara engir fjármunir til að gera meira. En ég væri ekki í þessu nema af því mér þykir þetta skemmtilegt,“ segir hann.

Ekki kveðst Ari fá styrk í þessa vinnu – ekki enn þá. „Ég hef fjárfest í nýjustu tækni sem völ er á til þessara hluta. Duggholufólkið var fyrsta íslenska myndin sem gerð var með stafrænu tækninni. Ég lét litgreina þá mynd erlendis hjá þeim sem fundu tæknina upp þannig að ég hef fylgst með henni frá því áður en hún fæddist og hún hefur tekið stórstígum framförum.“