Æsku­vinirnir Hrafn­kell Sigurðs­son, Stefán Jóns­son og Óskar Jónas­son hafa þann ár­lega sumarsið að yfir­gefa á­reiti borgarinnar og halda á vit ó­byggðanna þar sem þeir sleppa sér. Nú hafa þeir tekið saman flippaðar ferðir sínar í ljós­mynda­bókina Arctic Creatures og opna mynd­listar­sýningu undir sama nafni næsta laugar­dag.

„Við þekkjumst frá fornu fari og erum gamlir pönkarar sem voru farnir að föndra við list­sköpun mjög snemma,“ segir Stefán. „Með árunum fórum við að sækja meira og meira í náttúruna og ég held að það séu komin tíu til tólf ár frá fyrstu ferðinni.“

Ferðir fé­laganna liggja venju­lega á Horn­strandir þótt þeir hafi líka sprellað saman fyrir austan. Með mynda­vélar og síma í far­teskinu fóru smám saman að verða til inn­setningar og fífla­gangur í náttúrunni sem þróaðist smám saman í eitt­hvað al­var­legra.

Færslur félaganna vöktu mikla lukku á samfélagsmiðlum.
Fréttablaðið/Arctic Creatures

„Við notuðum sér­menntun okkar, list­rænan og pönkaðan bak­grunn, til að út­búa alls konar til­vísanir í lista­sögu og annað. Það er mikið af reka­viði og drasli sem rekur á fjöru við Horn­strandir og við fórum að gera okkur mat úr því á líf­rænan og skemmti­legan hátt,“ út­skýrir Stefán, sem segir að myndirnar hafi vakið lukku á sam­fé­lags­miðlum. „Það var mikið verið að hvetja okkur til að gera eitt­hvað meira með þetta þótt það hafi alls ekki verið planið hjá okkur.“

Að lokum létu vinirnir undan þrýstingi og niður­staðan er mynd­listar­sýning og bókar­út­gáfa. Á myndunum má meðal annars sjá þá í­klædda sjávar­þangi, neta­dræsum og plast­úr­gangi.

Eruð þið þá að reyna að vekja at­hygli á draslinu í fjörunni?

„Það er kannski ekki út­gangs­punkturinn en vissu­lega er plast­mengun hafsins gríðar­leg. Þetta er svona að­eins önnur nálgun á að vekja at­hygli á þessu, enda getur plastið verið lit­ríkt og skemmti­legt. Vissu­lega er það mengun en við erum að reyna að sýna á því annan flöt með því að búa til list úr draslinu,“ segir Stefán.

Sýningin verður opnuð laugar­daginn 28. maí kl. 16.00 í Pop Up Gallery á Hafnar­torgi.

Þrátt fyrir skaðleg áhrif plastsins á lífríki jarðar getur það verið litríkt og skemmtilegt.
Fréttablaðið/Arctic Creatures