Stöðin mín hefur verið lokuð í þrjá mánuði, vegna sóttvarnaráðstafana en nú fæ ég að opna hana aftur í dag,“ segir Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir og kveðst hlakka til. „Fólk er í einkatímum og svo koma 40 krakkar núna í vikunni, þau hafa yoga sem val í skólanum. Mér finnst þetta gaman og gefandi.“

Nýútkomin plata Arnbjargar Kristínar, Lifandi jörð, er lífrænt ferðalag með hljóðfærum og rödd, samkvæmt lýsingu hennar. „Hún er óvenjuleg þessi plata. Ég hef kennt gong sem er tónheilun og þannig kynnst tónlistarfólki. Í Covid-friðnum fæddust ljóð og ég fór að semja lög við þau. Platan Lifandi jörð er afrakstur af þessu. Upptökurnar eru lítið unnar og gefa tilfinningu fyrir lifandi flutningi á ýmsum stöðum.“

Undir Bodhi tré

Ferðalagið bak við plötuna hófst í Taílandi í nóvember 2019, þegar Arnbjörg Kristín var þar í jóganámi. „Í fyrsta laginu syng ég og spila á ukulele undir Bodhi tré. Söngurinn er feimnislegur en samt sjálfstraustsáskorun hjá mér. Áður hef ég bara sönglað fyrir fólk í slökun og því hefur líkað það. Ég spila aðeins á ukulele og pínulítið á gítar og bý tónlistina til á þau hljóðfæri. Svo fór ég að vinna með alvöru listafólki, eins og Alexöndru Kjeld, sem bjó til lífræna laglínu með kontrabassa við Himnasæng (ljóð hvalsins) og undrahljóð á strengina að auki. Díana Sus aðstoðaði þegar lag númer tvö, Í hjartarót, var tekið upp, eftir frumflutning þess á sumarsólstöðum í Grímsey 2020, á fögrum stað við stuðla-hamraberg og hafið.“

Lagið Tveggja heima hendur varð til á Siglufirði á listahátíð í júlí í sumar, að sögn Arnbjargar Kristínar. „Ég var stödd utan við Alþýðuhúsið hjá Aðalheiði Eysteinsdóttur, hún sýndi mér verkið sitt, Bergmyndanir, sem hún gerði eftir að hafa tengt sig við álfastaði uppi í fjalli. Ég fann sterka strauma frá þeirri konu sem var að rápa svona milli heimanna. Eftir það kom ljóðið með lítilli fyrirhöfn. Diana Sus spilar undir á lettneska hörpu og Gyða Valtýs fékk upptökuna í hendur og samdi sellóundirleik við.“

Fjallið og formæðurnar

„Í Moldulaginu kom ljóðið eftir jarðtengingarferð inn í Eyjafjörð, til mexíkóskrar vinkonu minnar að tína gulrætur,“ lýsir Arnbjörg Kristín. „Ég var orðin leið á dægurþrasinu og fannst það að fara í jörðina væri einfalt og viðráðanlegt verkefni! Þegar ég eldaði súpu úr gulrótunum kom ljóðið Molda til mín sem einskonar neðanjarðar náttúruvættur. Kanadísk vinkona mín, Tanya Devine sem spilar á ástralska hljóðfærið didgeridoo gerði grunntón, ég bætti trommuslætti við og raddaði við lagið í tanki austur á Djúpavogi. Þangað fór ég lok nóvember síðastliðnum og tók þetta upp. Kom aðeins við í Hoffelli í Hornafirði, tengdi mig við fjallið og fann fyrir formæðrum mínum, Þóru og Valgerði. En það veit enginn, ekki einu sinni mamma!“

Molda verður líka listviðburður á Djúpavogi í sumar, lofar Arnbjörg Kristín. „Lagið verður hljóðinnsetning í tanknum og ég er að tálga rekaviðardrumb með rótum, þannig að ég geng inn í neðanjarðarveröld í júní á Djúpavogi. Það verða þræðir út frá henni.“

Sonurinn spilar á skel

Fleiri koma við sögu á plötunni Lifandi jörð, svo sem Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir og þrettán ára sonur Arnbjargar Kristínar, Ýmir sem spilaði á indverska serimóníuskel á Siglufirði í sumar. „Ýmir er liðtækur klarinettuleikari og spilaði svo kröftugt á þessa skel, sem mörgum reynist erfitt, að það glumdi í firðinum. Hann á því eitt lag á plötunni, fyrsta Spotify lagið sitt!,“ segir móðirin. „Platan er eitt ævintýri og hún er bara á netinu. Iðnaðurinn er oft svo kröfuharður á árangur og peninga, þess vegna er gaman að búa eitthvað til bara af því það er gaman. Það hefur merkingu.“