Myndlistarmaðurinn Hjalti Parelius Finnsson er fæddur 1979 í Reykjavík. Hann stundaði nám á listnámsbraut við Fjölbrautaskólann í Breiðholti og lauk síðan BA-prófi frá Danmarks Designskole árið 2003.

Hjalti segir að listin hafi alltaf togað í hann enda alinn upp á listríku heimili.

„Ég var að vinna við grafíska hönnun þegar kreppan skall á fyrir áratug. Konan mín, Bergný Theodóra Baldursdóttir sem vissi af þessum áhuga mínum, hafði verið að hvetja mig áfram í listum. Ég var að vinna sem grafískur hönnuður þegar hún gaf mér trönur í þrítugsafmælisgjöf og sagði mér að þá hefði ég enga afsökun. Það varð úr að ég setti síðan saman fyrstu sýninguna á Ljósanótt í Reykjanesbæ árið 2009.“

Það kom Hjalta á óvart hvað myndirnar á fyrstu sýningunni hafi selst vel. „Í dag er ég henni afar þakklátur fyrir að hafa ýtt mér út í þetta. Án hennar hefði þetta ekki orðið,“ segir hann sem hefur haft málaralistina að fullu starfi síðan.

Að sögn Hjalta er þetta fyrsta einkasýning hans í þrjú ár hér heima, en vegna anna hefur listamaðurinn ekki haft nóg af verkum til þess að halda sýningu þar sem þau hafa selst jafn óðum. „Ég get ekki verið annað en þakklátur fyrir móttökurnar sem hafa verið vonum framar.“

Fyrirmyndir

Um verk sín segir Hjalti að hann líti á sig sem pistlahöfund sem málar. „Verkin hafa þróast frá því að vera eins konar yfirlýsing yfir í að vera sögur líðandi stundar,“ segir hann og bætir við að hann sæki efnivið oft í fréttir líðandi stundar og önnur mál sem hann hefur skoðanir á. „Ef ég ætti að nefna einhverjar fyrirmyndir þá væri það Erró ásamt Roy Lichtenstein, Andy Warhol, Öyvind Fahlström, Mel Ramos og aðrir popplistamenn ásamt gömlum meisturum eins og Picasso. Þetta eru þær kanónur sem heilla mig mest nú. Mörg verka þeirra falla vel að minni hugsun. Ég er hrifinn af myndmálinu og klippimyndaforminu. Þegar ég var yngri var maður að dufla við danstónlist og notaði lagabúta héðan og þaðan og takta og vann svokölluð remix, svo að þetta er nokkurs konar sjálfstætt framhald af því,“ segir Hjalti.

Myndefnið byssubardagi

„Ég leita að innblæstri í mínu eigin samfélagi og út í heim. Þema þessarar sýningar í Grásteini er kannski frábrugðið fyrri sýningum því myndirnar eru á vissan hátt meira agressífar. Myndefnið nú er sótt í byssubardaga. Þetta er ádeila á almenna vopnaeign, nokkuð sem er til umræðu alþjóðlega. Þetta var samt sem áður ekki viljandi gert, þetta einfaldlega kom til mín. Ég ákveð sjaldan slíkt fyrir fram. Ég stilli upp ákveðnu leiksviði þar sem áhorfandi getur túlkað á sinn hátt.“

Blaðamaður forvitnaðist um nafnið Parelius. „Þetta er danskt ættarnafn mitt sem ég fékk frá föður mínum, Finni P. Fróðasyni, en hann flutti til Íslands fyrir um 50 árum og hefur kunnað vel við sig hér síðan þá. Móðir mín, Ragnhildur Ásmundsdóttir, er íslensk, svo ég er hálfur bauni. Börnin mín hafa stundum spurt af hverju þau fengu ekki Parelius-nafnið og ég hef svarað því að þeim sé velkomið að taka það upp ef þau vilja.

Ég á þrjú börn, Eyþór Atla sem er 18 ára, Benedikt Eystein, 16 ára, og Hörpu Kristínu sem er 8 ára. Svo það er nóg að gera í fjölskyldulífinu. Ég er svolítið eins og húsfreyja á sjötta áratugnum sem vinnur heima og eldar,“ segir listamaðurinn og hlær.

Nýtt gallerí á Skólavörðustíg

Gallery Grásteinn er nýtt gallerí við Skólavörðustíg sem var opnað nýverið af tíu list- og handverksmönnum. Þar eru til sölu og sýnis keramik, skartgripir, trévörur, ljósmyndir, grafík, ullarverk og myndlist, allt eftir meðlimi gallerísins.

Á efri hæð hússins er síðan fallegur og bjartur sýningarsalur sem leigður er út til ýmissa sýninga og er sýning Hjalta Parelius opnunarsýning salarins.

Sýningin verður opnuð í dag, laugardag, kl. 16.00 og er opin til kl. 20.00. „Á Menningarnótt 24. ágúst verður síðan seinni opnun þar sem ég bæti nokkrum verkum við sem ég náði ekki að klára fyrir opnun í dag. Seinni opnunin á Menningarnótt verður frá kl. 16-20,“ segir hann.

Sýningin stendur til 30. ágúst en þá verður hún færð til Berlínar þar sem Hjalti opnar sýna fyrstu einkasýningu í Berlín í Seven Stars galleríinu í Mitte.