Tíu ár eru liðin frá formlegum stofnfundi Pírata og fagna þeir tímamótunum með málþingi og balli.

Píratar fagna tíu ára afmæli sínu í dag en formlegur stofnfundur þeirra fór fram 24. nóvember 2012. Þar voru samþykkt drög að lögum flokksins og ákveðið að nafn hans skyldi vera Píratar. Halldóra Mogensen þingflokksformaður segir góða stemningu fyrir tímamótunum.

„Stemningin er bara mjög góð,“ segir hún. „Við erum nú orðin rótgróinn flokkur og það er auðvitað mjög spennandi áfangi.“ Flokkurinn sótti innblástur til sænsku Píratahreyfingarinnar sem stofnuð var 2006 og segir Halldóra að þegar Píratar á Íslandi voru stofnaðir hafi grunnhugsunin verið lýðræðið.

„Píratar voru stofnaðir til þess að innleiða virkt lýðræði á Íslandi. Grunnstefna flokksins hvílir á lýðræði og það hefur haft áhrif á öll okkar vinnubrögð frá upphafi,“ útskýrir hún. „Þetta snýr líka að tækniþróun í samfélaginu og hvaða breytingar hún hefur í för með sér. Hvernig við getum tryggt lýðræði, ekki bara í samfélaginu heldur líka í stafrænu umhverfi.“

Lýðræði og stafræn þróun

Þegar litið er um öxl telur Halldóra að flokkurinn hafi haldið sig við þá grunnstefnu sem lagt var upp með í upphafi. „Grunnstefnan litar allt okkar starf. Leiðarstefið er gagnsæi, ábyrgð, gagnrýnin hugsun og upplýstar ákvarðanir. Þetta er grunnurinn sem við byggjum á,“ segir hún.

„Það sem við höfum náð að gera umfram margar aðrar Píratahreyfingar er að við höfum náð að taka þessa upphafleg áherslu Pírata á hvernig við getum tryggt borgararéttindi og lýðræði í hinum stafræna heimi og yfirfæra hana á samfélagið allt.“

Gagnsæi og jaðarmál

Á tíu árum flokksins segist Halldóra stolt af mörgu sem hann hefur áorkað. „Það er svo margt, en það má kannski benda sérstaklega á hvernig þær áherslur sem við leggjum á alvöru aðhald gegn valdi og gagnsæi hafa leitt til viðhorfsbreytingar, bæði í stjórnmálum og í samfélaginu öllu. Í dag er það sjálfsögð krafa,“ segir hún.

„Svo er það áherslan á aðkomu fólks að ákvörðunartöku um málefni sem það varðar, ég finn að þessi nálgun hefur skipt sköpum í starfi okkar á þingi. Samráðið, sem er hluti af erfðamengi Pírata, virðist vera eftiráhugsun hjá mörgum öðrum flokkum, því miður.“

Þá finnst Halldóru Píratar einnig hafa komið ýmsum jaðarmálum inn í umræðuna. „Til dæmis borgaralaununum, sem enginn vissi hvað var á sínum tíma áður en Píratar fóru að tala um það. Afglæpavæðing neysluskammta er annað málefni en með umræðu Pírata hefur stuðningur almennings við málið nánast tvöfaldast á stuttum tíma.“

Málþing og djamm

Afmælisdagskrá flokksins hófst fyrr í vikunni en nær hámarki um helgina með málþingi og afmælisballi. „Yfirskrift málþingsins er „Gagnsæi gegn spillingu og aðhald með valdi“ sem ég myndi segja að sé þungamiðjan í okkar starfi,“ segir Halldóra.

„Um kvöldið ætlum við svo að djamma saman, og það er öllum boðið, ekki bara Pírötum, að koma og fagna með okkur.“

Málþingið fer fram á Kjarvalsstöðum klukkan 12 á morgun og afmælisballið fer af stað klukkan 20 á neðri hæð Kex hostels.