Myndlistar- og bókagerðarkonan Rúna Þorkelsdóttir opnar sýninguna Pappírsblóm í Hönnunarsafninu í dag. Hún er búsett í Hollandi en hefur verið föst á Íslandi vegna COVID. Hún hefur rekið bókabúðina Boekie Woekie í Amsterdam til fjölda ára, en sagan að baki sýningunni hófst þar fyrir rúmlega tuttugu árum.

„Þetta byrjaði á því að ég komst í svokallaða Rotaprint prentvél úti í Hollandi á tíunda áratugnum,“ segir Rúna. Rota-print vélarnar voru forverar ljósritunarvélanna og notuðust við pappírsplötur.

„Kollegi minn þar komst að því að við gátum teiknað beint á pappírsplöturnar með feitum pennum og þannig festist liturinn svo við þurftum ekki að beita fótógrafískri aðferð,“ segir Rúna sem vann þriðju bók sína, Paperflowers, með þessum hætti. Paperflowers var gefin út árið 1998 í 100 árituðum og innbundnum bókum.Eitt eintakið var selt til bókabúðar í Tókýó. Árið 2007 það vakti það athygli fatahönnuðar að nafni Tao Kurihara sem vinnur fyrir tískuhúsið Comme des Garcons.

„Hún hafði uppi á mér, hringdi í Boekie Woekie og spurði mig hvort ég myndi vinna með henni að vorlínu.“ Úr varð samstarfsverkefni við gerð fataefnis út frá verkum Rúnu.„Ég var mjög stolt af því hvernig hún vann þetta allt saman,“ segir Rúna en þær Kurihara völdu saman myndir án þess að nota myndvinnsluforrit.

Línan var síðar kynnt á tískusýningu í verslun Comme des Garcons í París árið 2008 og vakti mikla athygli, en meðal kaupenda flíka úr línunni var Michelle Obama, fyrrverandi forsetafrú Bandaríkjanna.Eftir að sýningunni lauk átti Rúna mikið af efni sem hún vissi ekki hvað hún ætti að gera við.

„Á endanum lét ég svo Safnasafnið á Akureyri fá öll efnin, tískublöðin, bókina, frumritin, plöturnar, ljósmyndir og margt fleira.“ Safnasafnið hélt svo sýningu á verkum Rúnu síðasta sumar og hefur nú lánað Hönnunarsafninu sýninguna. Rúna segir þó að sýningin verði aðeins öðruvísi en hún var á Safnasafninu í fyrra, þar sem hún fær nú aukið rými auk þess sem Rúna sjálf sprellaði aðeins við uppsetninguna.Sýningin stendur yfir til 6. júlí.