Erindið mitt nefnist Fingraför Sæmundar fróða. Það snýst um heimildir um skrif Sæmundar í Odda, sem finna má í fornum bókum,“ segir Friðrik Erlingsson rithöfundur, sem verður með fróðleiksstund í Kvoslæk í Fljótshlíð klukkan 15.00 í dag, laugardag.

Friðrik segir Sæmund fróða stundum nefndan fyrsta íslenska rithöfundinn. Vitað sé að hann skrifaði Noregskonungatal og langfeðgatal hinna fornu Danakonunga, Skjöldunga. „Ég mun draga fram f leiri verk sem hann gæti hafa skilið eftir sig og styðst við tilvitnanir sem hljóta að vera úr rituðum verkum hans. Þetta er ekki fullkomin rannsókn hjá mér, en ég þykist hafa fundið fingraför hans víða,“ segir hann.

Sæmundur Sigfússon var prestssonur, fæddur 1056 og var sendur til náms erlendis árið 1072, að sögn Friðriks. „Þegar hann kom heim aftur vígði hann nýja kirkju í Odda og helgaði heilögum Nikulási, sem var verndardýrlingur, og síðar varð hann frumgerðin af ameríska jólasveininum. Sæmundur var af fyrstu kynslóð Íslendinga sem lærðu í útlöndum rétt og lög kirkjuhalds, mælskufræði, heimspeki, söng, stjarnfræði, landmælingar og fleira. Var eins menntaður og menn gátu orðið í þá daga og einn upphafsmanna ritaldar hér á landi.“

Sæmundur fróði var frumkvöðull að tíundarlögunum, fyrstu skattlagningu á Íslandi, ásamt Gissuri biskupi Ísleifssyni,“ lýsir hinn fróði Friðrik. „Sú skattheimta skapaði heilmikinn auð á næstu áratugum, sérstaklega á biskupssetrum og stórum kirkjustöðum og var grundvöllur undir það menningar- og bókmenntastarf sem síðan braust út og blómgaðist næstu tvær aldir. Upphaf ritaldar er kannski sambærilegt við það þegar íslenska kvikmyndavorið brast á um 1980. Þá var að koma heim frá námi hópur leikstjóra og kvikmyndaframleiðsla byrjaði fyrir alvöru hér á landi.“

Friðrik veltir fyrir sér hvað hefði gerst, ef Íslendingar hefðu ekki haldið út til náms á elleftu öld. „Þá hefði ekki verið ritaður allur sá fróðleikur sem við búum að í dag, Eddukvæðin og annað slíkt, sem var partur af heiðinni heimsmynd og var að hverfa með því fólki sem kunni þessi kvæði.“

Þjóðsögurnar hafa gert Sæmund fróða að einhvers konar galdramanni. Friðrik telur sögurnar um samskipti hans og kölska, hugsanlega tengjast helgileikjum við kirkjuna í Odda. „Í sögu heilags Nikuláss fylgir honum lítill svartur púki, sem er tákn fyrir hið illa og er alltaf að hrekkja og stríða, en Nikulás reynir að skikka hann til. Sagnirnar gætu hafa færst yfir á Sæmund og túlkað fjölkynngi hans, þar sem hann er að gera lítið úr kölska og vefja honum um fingur sér.“

Friðrik kveðst eiga margra áratuga pælingar að baki um Sæmund fróða og fagnar því að fá tækifæri til að losa sig við þessa byrði í Hlöðunni að Kvoslæk. Aðgangur er ókeypis og húsráðendurnir, Rut Ingólfsdóttir og Björn Bjarnason bjóða upp á kaffi að loknu erindinu.