„Við byrjuðum á þessu í fyrrasumar og þetta varð strax mjög vinsælt,“ segir Jón Bjarnason, organisti í Skálholti, um viðburðinn Óskalög við orgelið sem fram fer í Skálholtskirkju klukkan átta í kvöld.

„Ég spila á orgelið og við erum með lista með yfir hundrað lögum sem fólk getur valið sér að heyra og svo geta allir sungið með,“ segir Jón. Lagalistinn er sérlega fjölbreyttur en þar má meðal annars finna Söknuð Vilhjálms Vilhjálmssonar, Mamma Mia! frá Abba, Star Wars-þemalagið og Tríósónötu númer 1 í Es-dúr eftir Bach.

Spurður að því hvað sé vinsælasta lagið segir Jón svarið við því auðvelt. „Það er Vikivaki eftir Valgeir Guðjónsson, sem margir þekkja kannski betur sem Sunnan yfir sæinn breiða, það er langvinsælasta lagið,“ segir hann.

„Þar á eftir kemur svo Bohemian Rhapsody með Queen, þarna sérðu strax hvað þetta er fjölbreytt,“ bætir hann við.

Jón segir að fjöldi fólks leggi leið sína í Skálholt til að hlýða á Óskalög við orgelið og syngja með. Mest sé það fólk úr sveitinni í kring en þó sé einnig algengt að fólk geri sér ferð þangað. „Þetta er mjög fjölskylduvænt og allir velkomnir,“ segir Jón.

„Það er mjög fjölbreyttur hópur sem kemur hingað og einu sinni kom meira að segja heill karlakór og tók nokkur lög,“ bætir hann við.

Jón segir það skemmtilega upplifun fyrir gesti að fá að heyra ólíka tónlist hljóma á orgelið. „Orgel er svo magnað hljóðfæri og er eiginlega eins og heil hljómsveit. Það er svo gaman fyrir fólk að heyra annað en orgeltónlist og sálma spilað á það,“ segir hann.

Í Skálholtskirkju er orgelið tignarlega sem Jón talar um en í kirkjunni hefur aldrei verið píanó. Nú stendur yfir söfnun þar sem sem safnað er fyrir flygli í kirkjuna. Nýr flygill er sagður muna lyfta tónlistarlífi kirkjunnar í nýjar hæðir og auka framboð á mismunandi tónleikum í kirkjunni. Tekið verður við frjálsum framlögum í flygilsjóðinn í kvöld svo þau sem vilja geta lagt söfnunni lið.

En hvað kostar nýr flygill?

„Hann kostar mjög mikið. Svona átján milljónir,“ segir Jón. „En við erum komin með yfir fimm milljónir svo það er góð byrjun,“ bætir hann við.