„Laugavegurinn er algjört byggingarsögusafn,“ segja hjónin Anna Dröfn Ágústsdóttir sagnfræðingur og Guðni Valberg arkitekt sem gáfu nýlega út bókina Laugavegur þar sem gerð er grein fyrir byggingar- og verslunarsögu götunnar í máli og myndum.

Aðspurður um hvaðan hugmyndin að bókinni kom segir Guðni: „Ég opnaði verslunina Dogma með bræðrum mínum á Laugavegi fyrir nítján árum og á sama tíma var ég að íhuga að byrja í arkitektanámi. Þegar við vorum að gera breytingar á rýminu var ég mikið að spá í það hvaða verslanir höfðu verið í húsnæðinu áður og velti mikið fyrir mér sögu húsanna í kring. Þessi forvitni um götuna hefur eiginlega fylgt mér síðan.“

Laugavegurinn hefur lengi verið eins konar ósæð fyrir bæjarlífið í Reykjavík. „Um aldamótin 1900 fór verslunum þar að fjölga. Þessi fjölmennasta íbúðagata bæjarins breyttist fljótt í aðalgötu og tóku gömlu timburhúsin mörg talsverðum breytingum í takt við ný hlutverk og dæmi voru um að húsum væri lyft til að koma fyrir verslun eða verkstæði á jarðhæð,“ segir Guðni og bætir við að timburhúsin hafi svo „vikið eitt af öðru fyrir hærri steinsteyptum nýbyggingum á öðrum og þriðja áratugnum“.

„Þau hús setja enn svip á götuna en sem dæmi má nefna húsið sem Andrés Andrésson klæðskeri reisti á Laugavegi 3 og Sandholtsbakarí og Verslun Guðsteins ofar við götuna,“ segir Anna Dröfn.

„Laugavegurinn er allt frá því að hann er lagður aðalleiðin fyrir þá sem koma fótgangandi eða ríðandi á hesti inn í bæinn. Þegar umferð eftir veginum sem hafði verið lagður í Laugarnar eykst fara sífellt fleiri að sjá tækifæri í því að koma upp þjónustu við þessa ferðamenn sem áttu erindi til Reykjavíkur og þá að vera jafnvel fyrst til þess að selja þeim eitthvað og byggja þá ofarlega en lengst af var vinsælast að byggja nálægt Kvosinni þar sem hjarta verslunar var,“ bætir hún við.

Stórhýsi og stærri hugmyndir

Í bókinni fara Anna Dröfn og Guðni yfir sögu meira en hundrað húsa við Laugaveginn og leggja áherslu á byggingarsögu þeirra, hvernig þau litu út í upphafi, hvaða hugmyndir hafi verið uppi um framtíð þeirra og hvernig þau hafi umbreyst í gegnum árin.

Eitt af þeim húsum sem stóð upp úr hjá Önnu Dröfn og Guðna í rannsóknarvinnunni var Laugavegur 25. „Ég hefði fyrirfram aldrei nefnt það sem mitt uppáhaldshús á Laugaveginum en þegar ég kynntist sögu þess þá var það svo áhugavert,“ segir Guðni. „Þar var byggt stórhýsi árið 1961 með súlnagöngum sem taka næstum tvær hæðir. Þar stóð steinbær sem var minnkaður til að koma nýbyggingunni fyrir, en það var síðan aldrei klárað í fyrirhugaðri mynd. Það er magnað að sjá myndir af húsinu sem reis árið 1961 í þeirri mynd sem það stóð til 1980.“ Anna Dröfn segir að á mynd af húsinu megi sjá hvernig gatan átti að teygja sig næstum inn í húsið. „Það segir svo mikla sögu um það hvernig miðbærinn hefði getað þróast,“ segir hún.“

Eitt af húsunum sem stóð upp úr í rannsóknarvinnu Önnu Drafnar og Guðna er Laugavegur 25 sem á sér stórmerkilega byggingarsögu. Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur