Mér skilst að aðrar reglur gildi hér á Gran Kanarí en á Spáni, í sambandi við matarinnflutning, en þeir sem taka að sér flutninga eiga að standa klárir á því hvaða pappírar þurfa að fylgja sendingum svo varan komist á leiðarenda. Á því var misbrestur sem varð til þess að öllum þorramatnum okkar var hent,“ segir Guðbjörg Bjarnadóttir sem er í stjórn nýstofnaðs Íslendingafélags á Kanaríeyjum. Hún segir þessi mistök ekki einsdæmi en þarna hafi verið um býsna stóra sendingu að ræða þar sem maturinn átti að metta 235 manns.

Fólk var búið að borga fyrirfram á blótið. „Það var ekki hægt að fara af stað með þetta öðruvísi. Annars hefði fólk kannski pantað en ekki mætt þótt búið væri að kaupa matinn og flytja hann yfir hálfan hnöttinn. Hvort tveggja er rándýrt. Það er á ábyrgð okkar allra að taka á þessu skakkafalli. Flutningsfyrirtækið er samt búið að endurgreiða okkur, svo því sé haldið til haga,“ útskýrir Guðbjörg.

Það er sárgrætilegt að svona góðmeti hafi verið fleygt. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Málið var leyst með stæl. „Við bara bjuggum til íslenska kjötsúpu úr nýsjálensku lambi og góðu Kanarí-grænmeti. Dönsk stúlka sem rekur veitingastað hér færði okkur kúffullar skálar af síldarsalati og brauð með, hvort tveggja mjög gott. Það var sungið og heimagerð skemmtiatriði voru flutt. Allir sem mættu voru glaðir og ánægðir með hvernig til tókst og það var mál manna að þetta blót muni lifa í minningunni. Flestir spurðu hvað þeir ættu að borga fyrir súpuna og síldina.“

Guðbjörg segir marga Íslendinga á Gran Kanarí. „Eftir að Klara hætti með sinn veitingastað hefur í raun enginn staður komið í staðinn til að hittast á, með þeirri stemmingu sem þar var, en við fengum frábæran sal í gær í Maspalomas Lago til að halda okkar samkomu, hefðum getað verið með helmingi fleiri í honum.“

Hún segir gaman að vera með séríslenska viðburði fyrir fólkið sem dvelji á Kanarí heila og hálfa árið. „Það var búið að segja okkur að ef við ætluðum að halda þorrablót yrðum við að fá einhverja til að taka matinn með sér í töskum út, en annaðhvort verður að fara réttar leiðir eða sleppa þorrablóti. Ég ætla ekkert að útiloka að við reynum þetta aftur, ef hægt er að græja þessi pappírsmál og ég trúi ekki öðru en það verði gert. Fyrst þarf samt að fara yfir það hvað úrskeiðis fór. Kórónaveiran er auðvitað ekki að hjálpa til, það eru allir dauðhræddir, fólk í tollinum hefur eflaust haldið að maturinn væri eitthvað sýktur, en hann var nú ekki að fara í verslanir, við ætluðum að borða hann sjálf. Ég get samt skilið að útlendingarnir hafi ekki verið brattir þegar lykt af hákarli og harðfiski mætti þeim og sviðakjamminn leit upp úr kassanum! Þetta fer í reynslubankann og við höldum áfram.“