Námsorðaforði er aðaláhersluefni í nýhöfnu samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar og Háskóla Íslands. Verkefnið ber heitið Mikilvægur orðaforði fyrir fjöltyngi og vélþýðingar og lýtur að því að búa til verkfæri sem auðvelda þeim sem eru að læra íslensku að efla íslenskufærni sína. Til grundvallar verkefninu er listi yfir íslenskan námsorðaforða en þekking á orðum af því tagi er nauðsynleg til að öðlast góðan lesskilning í íslensku og tjáningarfærni.

„Við Baldur Sigurðsson, dósent á Menntavísindasviði, fórum fyrst að fjalla um námsorðaforða þegar við vorum að greina niðurstöður PISA 2015 og 2018,“ segir Sigríður Ólafsdóttir, dósent á Menntavísindasviði HÍ. „Þetta hugtak hefur orðið til út frá fjölmörgum rannsóknum síðustu 25 ár þar sem hvatinn hefur verið að gefa hverju einasta barni það sem það þarf svo það geti blómstrað í skólanum.

Sigríður segir að litið sé til þeirra grundvallarmarkmiða að barn geti skilið það sem það á að læra, tekið þátt í umræðum og skrifað um það og að barn skilji ekki aðeins mikilvæg orð heldur noti þau í töluðu og rituðu máli.

„Þetta eru lágmarkskröfur sem við skólasamfélagið berum ábyrgð á. Hlutverk skólans er að gefa börnum tækifæri,“ segir hún. „Foreldrarnir leika auðvitað gífurlega mikið hlutverk því máluppeldið byrjar heima og börnin fá mjög mismikið tungumál hjá foreldrum sínum.“

Málnotkun í námi

Sigríður bendir á að tungumálið í námi, jafnvel strax í leikskólanum, sé miklu ríkulegra en það sem við notum með vinum og fjölskyldu.

„Orðaforðinn er svo miklu fjölbreyttari því að í gegnum orðin hugsum við um flókin málefni á innihaldsríkan hátt,“ útskýrir hún. „Kennarar kenna orð sem tilheyra námsgreinum. Þegar þú lærir stærðfræði lærir þú til að mynda sögnina að margfalda og hvað hún felur í sér. Það sem rannsóknirnar hafa sýnt okkur síðustu 25 ár eða svo er að það eru orðin sem eru notuð með þessum orðum sem börn þekkja í mismiklum mæli og þar liggja tækifærin.“

Sem dæmi nefnir Sigríður að þegar barn læri um jarðskjálfta og eldgos þá fylgi því svakalega mörg orð – ekki bara úr jarðfræðinni heldur líka orð eins og orsök, afleiðingar, framvinda og svo framvegis. „Það eru þessi orð sem eru á nýjum lista yfir námsorðaforða.“

Markviss kennsla

Listinn verður þýddur á alls sex tungumál þar sem það getur reynst fjöltyngdum börnum afar gagnlegt að hafa þessi orð, ekki bara á íslensku heldur hinum tungumálum sínum. Þá munu meistaranemar í ritlist, Þórunn Rakel Gylfadóttir og Berglind Erna Tryggvadóttir, semja stutta texta sem innihalda orð úr íslenska námsorðaforðanum og verða sögurnar á ólíkum erfiðleikastigum. Stefanie Bade, sem lýkur doktorsgráðu í íslensku núna á árinu, mun þróa sérstök viðmið fyrir íslenska tungumálið.

„Því algengari sem orðin eru á listanum, þeim mun mikilvægari eru þau,“ segir Sigríður. „Við ætlum að reyna hvað við getum að koma orðunum í textana sem eru efst á listanum, frekar en að reyna að fara langt niður listann.“

Orðin á listanum eru mörg hver flókin og hafa huglæga merkingu. Það er þess vegna ekki hægt að teikna merkingu þeirra upp heldur þarf að útskýra hana með orðum.

„Þekking á slíkum orðum nýtist þegar sömu orð koma fyrir í öðrum tungumálum,“ segir Sigríður. „Hafi nemendur þessi orð í móðurmálinu eða öðrum tungumálum þá vita þau strax merkingu orðsins. Vonandi verður þetta til þess að við förum að kenna íslensku markvisst, og sambærilega í skólum landsins og á námskeiðum í íslensku fyrir fullorðna. Það er löngu kominn tími til þess.“