„Það eru forréttindi að fá að heimsækja Surtsey. Alltaf spennandi að koma þangað og skoða hvað er að gerast,“ segir Lovísa Ásbjörnsdóttir, sem var leiðangursstjóri í Surtseyjarferð jarðfræðinga nýlega og hefur farið nokkrum sinnum áður.

Tanginn vesældarlegur

Surtsey hefur verið einstakur rannsóknastaður náttúruvísindafólks síðan hún varð til í eldgosi við Vestmannaeyjar 1963.

„Jarðfræðingar Náttúrufræðistofnunar fara út í Surtsey annað hvert ár en líffræðingar á hverju ári,“ útskýrir Lovísa. „Ég fór ekki með 2019 og það kom mér á óvart nú hvað eyjan hefur breyst mikið á fjórum árum. Nyrst á henni er tangi, þar voru einu sinni sandstrendur en núna bara gróf möl og hnullungar úr hrauni sem myndaðist sunnan við Surtsey í gosinu. Við höfum fylgst með rofi hraunsins, vegna ágangs sjávar, og flutningi efnisins með straumum norður fyrir eyna. En ljóst er að dregið hefur verulega úr framboði efnis og tanginn er því orðinn mjór og vesældarlegur. Þá hefur magn af lausri gjósku í Surtsey farið minnkandi á síðustu árum, aðallega vegna vatnsveðurs.“

Hér er Lovísa í Surtsey og mundar mælitækin. Mynd/Birgir V. Óskarsson

Eins og kennslubók

Með vísindafólkinu í för að þessu sinni var Þórdís Ólafsdóttir myndlistarkona sem vinnur að listaverki um Surtsey fyrir Umhverfisstofnun.

„Það var lærdómsríkt og gaman að fá sýn Þórdísar á umhverfið,“ segir Lovísa. „Gegnum hana rifjaðist líka upp fyrir mér hvað það var stórkostleg upplifun að koma í eyjuna í fyrsta skipti 2006 þegar ég fór með Sveini P. Jakobssyni jarðfræðingi sem nú er látinn. Sveinn hóf árið 1968 að fylgjast með jarðhita og myndun móbergs í Surtsey og við á Náttúrufræðistofnun höfum haldið þeirri vöktun áfram.“

Móberg er frekar sjaldgæft annars staðar en á Íslandi, að sögn Lovísu.

„Í Surtsey fengum við að fylgjast með hvernig móberg verður til úr gjósku með hjálp jarðhita. Það kom jarðvísindamönnum á óvart hvað það gerðist hratt í Surtsey því áður var talið að það tæki jafnvel hundruð ára. Þetta voru nýjar uppgötvanir fyrir jarðvísindin á sínum tíma.“

Lovísa segir reglulegar mælingar í Surtsey sýna að jarðhitastig fer lækkandi með árunum.

„Við mælum samt enn 80-90 gráðu hita sem einskorðast núna við gjóskugígana tvo sem eru orðnir að móbergi og kallast Vesturbunki og Austurbunki. Jarðhitinn í Surtsey er í tengslum við berginnskot í kjarna eyjarinnar og hitinn streymir frá þeim upp um sprungur í bunkunum.“

Hópurinn tók með sér rusl sem hann fann. Þó ekki þungan gufuketil sem rak þar fyrir nokkrum árum, hefur flust til og krumpast. Mynd/Lovísa

Tæplega 60 ára land

Í tengslum við Surtseyjarsýningu 2007 voru settar fram hugmyndir um hvernig Surtsey myndi líta út í framtíðinni, að sögn Lovísu.

„Því var spáð að árið 2130 yrði Surtsey eins og aðrar úteyjar Vestmannaeyja, móbergsstandur með græna gróðurhettu, ekki ósvipuð Bjarnarey. Við horfum á þessa þróun gerast hratt þegar haft er í huga að það eru bara tæp 60 ár frá því að Surtsey myndaðist. Í hugum jarðfræðinga, sem eru vanir að tala um milljónir ára, er þessi tími bara augnablik.“

Á Lovísa von á að byggður verði veiðikofi í Surtsey í framtíðinni, eins og í Bjarnarey?

„Nei, ég sé frekar fyrir mér rannsóknastöð, alþjóðlega rannsóknastöð náttúruvísinda.“