Við erum mjög lítið í þinghúsinu þessa dagana, bara þeir sem nauðsynlega verða að mæta á svæðið, segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, spurð út í nýtt vinnufyrirkomulag alþingismanna vegna kórónaveirunnar. „Við höfum skrifstofur nálægt þinginu, hver þingmaður fyrir sig, og svo er þinghúsið nokkuð rúmgott, sérstaklega þegar svona fáir mæta,“ lýsir hún.

Eins og sést í sjónvarpinu fara þingmenn enn þá upp í pontu til að skiptast á skoðunum. „Breytingin er einna helst sú að það eru miklu færri sem taka þátt í umræðum nú en venjulega, oftast bara einn eða tveir fulltrúar frá hverjum þingflokki og við pössum að hafa gott bil á milli okkar. Þetta pontufyrirkomulag er ekki fullkomið enda engir tveir metrar milli fólks þar, með forsetann á bak við ræðumann og starfsmann forseta við hlið hans. En ég hef ekki skynjað vilja til þess að skipta um sal hingað til,“ segir Þórhildur Sunna. Hún kveðst ekki hafa séð þingmenn ganga með hanska til að verjast smiti en hins vegar suma starfsmenn. „Svo er spritt úti um allt,“ tekur hún fram.

Á nefndarsviði segir Þórhildur Sunna tvö herbergi nógu stór til að halda tveggja metra bilinu milli fólks þó öll nefndin mæti. „En flest nefndarstörf liggja niðri núna og þær nefndir sem funda nota mikið fjarfundabúnað.“ Hún segir þingflokk Pírata bara halda fjarfundi þessa dagana og það fyrirkomulag gagnast vel innan þingsins líka. „Við Píratar höfum reyndar alltaf notast töluvert við fjarfundabúnað þannig að okkur finnst það hvorki nýtt né framandi.“

Alþingi er búið að slá öllum málum á frest sem ekki tengjast kórónaveirunni og ástandinu af hennar völdum, að sögn Þórhildar Sunnu. Sjálf kveðst hún vera að berjast fyrir því að ríkisstjórnin hjálpi öllum á Íslandi í gegnum þessa erfiðleika. „Mér finnst stjórnin leggja fullmikla áherslu á að vernda efnahag miðaldra, vel settra karla sem þurfa vissulega hjálp líka, en þeir þurfa kannski ekki næstum því alla hjálpina sem verið er að veita. Svo vil ég passa vel upp á mannréttindi og frelsi. Á neyðartímum er mikilvægt fyrir stjórnarandstöðu að fylgjast vel með því að ekki sé of langt gengið í frelsisskerðingu,“ segir hún og bætir við. „Ríkisstjórnin hefur staðið sig nokkuð vel í því að skerða ekki frelsi eða fara fram hjá reglum að óþörfu, í nafni neyðarástands, en ég fylgist áfram með til öryggis.“