Í fyrsta sinn verða allir fræðsluviðburðir Hinsegin daga teknir saman í eina heild og úr verður sérstök Regnbogaráðstefna Hinsegin daga.

Ráðstefna Hinsegin daga byrjaði í gær og heldur áfram í dag, annars vegar í Pride Center, sem er staðsett á Geirsgötu 9, og hins vegar á Borgarbókasafninu Grófinni.

Á dagskrá ráðstefnunnar er fjöldi áhugaverðra og fræðandi fyrirlestra, erinda, pallborða og fleira um fjölbreytt málefni tengd hinsegin samfélaginu. Allir dagskrárliðir ráðstefnunnar eru táknmálstúlkaðir.

Í gær var til dæmis fyrirlestur um Trans fólk og afreksíþróttir sem hefur verið í deiglunni undanfarið, Hinsegin í heimabyggð og Hinsegin í tölvuleikjum. Í dag verða fjórir viðburðir og hefjast þeir klukkan 12.30 þar sem rætt verður um Fjölástir og fjölbreytileikann. Ofbeldisforvarnarskólinn sér um Hatrið sem þú hunsar er fordæmið sem þú setur! og enskur fyrirlestur er á dagskrá um Hatrið í heiminum áður en Hvað felst í jafnrétti fyrir kvár? verður í lok dagskrár.

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, hafði í ansi mörg horn að líta þegar Fréttablaðið sló á þráðinn til hans en hann segir að á þessum tveimur stöðum sé búið að safna saman allri fræðslu og viðburðum sem Hinsegin dagar hafa lagt áherslu á í mörg ár í eina heild.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við erum að keyra þetta í þessu ráðstefnuformi og gera þessu þar með hærra undir höfði en að dreifa þessu hér og þar yfir alla dagana.“

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga.
Mynd/aðsend

Gunnlaugur bendir á að mikið af þessum fyrirlestrum og fræðslu komi inn á borð Hinsegin daga og sé ekkert frá þeim komið. „Mörg þessara erinda koma til okkar. Við erum að sitja sem minnst og hugsa um hvað sé áhugavert heldur erum í samtölum við okkar fólk og mikið af þessu kemur inn til okkar frá fólki sem vill ræða um þessi atriði. Tölvuleikjahlutinn til dæmis kemur frá aðilum í þeim geira sem vildu ræða þessi mál. Enda er hinsegin fólk ekki algengt í tölvuleikjum.

Þarna skapast vettvangur þar sem hægt er að kafa í hlutina og ræða þessi mál.“

Miðbær Reykjavíkur er kjaftfullur af erlendum ferðamönnum en Gunnlaugur segir að margir komi sérstaklega til Íslands til að taka þátt en Hinsegin dagar halda ekki sérstaklega utan um erlenda gesti. „Við vitum að það er mjög stór hópur erlendra gesta sem kemur sérstaklega hingað til lands til að taka þátt. Við fáum mikið af fyrirspurnum erlendis frá og einhverjir eru hérna fyrir tilviljun og grípa tækifærið. En það er vonlaust að giska á fjöldann.“

Aðspurður segist hann hafa gleðina í hjartanu og þó það sé mikið að gera sé ótrúlega gaman að vera til. „Púlsinn er góður þótt hann sé hraður. Það var svo gaman að vera í opnuninni og finna hvað fólk var tilbúið að koma saman. Þetta var mátuleg blanda af pólitík, aktífisma og góðri gleði. Maður fann að þetta var eitthvað sem fólk þurfti og við erum lukkuleg.“