Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir var ein af landsliðskonum Íslands í knattspyrnu um árabil og atvinnumaður bæði í Svíþjóð og á Englandi. Nú er hún nýbakaður doktor í líf- og læknavísindum. „Það var frábær hugmynd að fara í doktorsnám,“ segir Ólína Guðbjörg, sem er sálfræðingur og vinnur á geðdeild Landspítalans. Þar kveðst hún hafa innleitt nýja meðferð hjá fólki með geðrofsraskanir á byrjunarstigi. „Það er því miður alltaf þörf fyrir sérhæfða meðferð á því sviði og ég hef mörg dæmi um að sú nálgun sem ég lýsi í doktorsverkefninu hefur nýst mörgum þar. Hún snýst meðal annars um þjálfun hugrænna þátta og eflingu félagsskilnings. Áhrifin hafa verið jákvæð.“

Þó að Ólína Guðbjörg viðurkenni að doktorsritgerð fylgi mikil skrif, þá kveðst hún hafa getað samþætt vinnuna og doktorsnámið og er þakklát Landspítalanum fyrir að hafa fengið að fara í nokkurra mánaða rannsóknarvinnu hér og þar. „Ég hef fengið stuðning frá vinnuveitandanum, en honum nýtist líka þessi þekking mín.“

Ólína Guðbjörg kynntist fótboltanum fyrst í gamla heimabænum Grindavík. En er langt síðan hún lagði skóna á hilluna?

„Ég hætti árið 2016. Fékk slæman heilahristing og var að glíma við afleiðingarnar í dálítinn tíma. Þá lauk mínum fótboltaferli. En ég er farin að stunda líkamsrækt.“

Var það áfall að þurfa að hætta í boltanum?

„Ekki beint áfall. Ég var orðin 34 ára og hafði alltaf verið heppin, bæði hvað meiðsl snerti og annað. Þá var ég líka komin með tvö börn. Það var dálítið mikið í gangi á tímabili. Ég var í Svíþjóð í fjögur ár í atvinnumennsku hjá Örebro og bauðst þá að koma til Englands að spila með Chelsea, svo við Edda Garðarsdóttir, konan mín, fluttum til London í hálft ár, en komum heim 2013 og þá fór ég að vinna á geðsviði Landspítalans.“

Sem sagt búin með grunnnám í sálfræði áður en þú fórst í atvinnumennsku?

„Já, ég fór sem skiptinemi til Bandaríkjanna á sínum tíma og fékk í framhaldinu styrk til að fara í háskóla þar. Þá ákvað ég að velja sálfræði og líkaði strax vel í því fagi. Eftir það fór ég í Háskóla Íslands og kláraði klínísku sálfræðina 2009, meðfram fótboltanum í Svíþjóð.“

Eru börnin þín í fótbolta?

„Dóttir okkar er átta ára og spilar með Þrótti, svo ég er orðin fótboltamamma, alveg brjáluð á hliðarlínunni og finnst það rosa gaman. Svo er Edda, konan mín, aðstoðarþjálfari hjá meistaraflokki Þróttar, svo fótboltinn er mikið fjölskylduáhugamál.“