Það væri okkur sönn ánægja að sjá sem flesta sem hafa komið að starfi skólans síðustu tvo áratugi,“ segir Lilja Hjaltadóttir, aðstoðarskólastjóri Allegro Suzukitónlistarskólans. Hún og aðrir aðstandendur hans ætla að fagna tvítugsafmæli hans í kvöld í Salnum í Kópavogi. Að sjálfsögðu verður tónlist í hávegum höfð, nemendur, bæði núverandi og fyrrverandi, koma þar fram, að sögn Lilju og einnig verður stiklað á stóru í sögu skólans.

Lilja, sem er fiðlukennari, stofnaði skólann, ásamt eiginmanni sínum, Kristni Erni Kristinssyni píanóleikara. Til liðs við þau gengu foreldrar nemenda þeirra og einnig kennararnir Þórdís Stross, Helga R. Óskarsdóttur og Hlíf Sigurjónsdóttir. „Við Kristinn kynntumst svona starfi vestra, ég var í háskóla í Illinois á sínum tíma og var í námi hjá John Kendall sem var alger frumkvöðull í Suzukifræðum í Bandaríkjunum,“ segir Lilja sem kom heim með masterspróf í fræðunum 1982 og hóf kennslu á Akureyri það sama ár.

„Okkur Kristni fannst ótvíræð þörf fyrir þennan skóla, enda hefur eftirspurn eftir vist í honum verið mikil,“ segir Lilja og tekur fram að skólinn hafi í fimm ár verið rekinn í samstarfi foreldra og kennara. „Þetta var algert grasrótarstarf í byrjun.“

Í skólanum núna eru kringum 80 nemendur, að sögn Lilju. Flestir byrja um þriggja ára aldurinn og sumir eru þar þangað til þeir fara á framhaldsstig. „Hér er góður andi, starfið er fjölbreytt og það hefur skapast skemmtileg stemning milli foreldra, kennara og barna. Við erum með hóptíma á laugardögum þar sem fjölskyldurnar koma saman og foreldrarnir sjá um kaffi. Okkur finnst svo mikilvægt að foreldrar geti verið með börnum sínum.“

Lilja segir þau hjón kenna líka á námskeiðum erlendis og hafa virkjað bæði nemendur og foreldra í að fara með þeim þangað. „Það hefur lyft starfinu hjá okkur að fylgjast með því sem er að gerast hinum megin við álinn og geta komið heim með nýjar hugmyndir. Við leggjum mikinn metnað í skólastarfið og bjóðum upp á góða kennslu enda erum við með frábært starfsfólk. Við erum líka heppin með foreldra sem hafa hjálpað okkur að byggja skólann upp.“