Hver einasti fermetri í OKinu er úthugsaður. Þar verður hægt að læra, skapa, fikta, eiga í samtali við aðra og einfaldlega hanga,“ segir Guðrún Baldvinsdóttir, verkefnastjóri OKsins, nýs upplifunarrýmis fyrir unglinga í 7. til 10. bekk, en ekki aðra aldurshópa. Rýmið er þar sem sýningarsalir Gerðubergs á efri hæðinni voru áður og verður opnað á morgun á vegum Borgarbókasafnsins. „Við verðum með svaka partí milli klukkan 18 og 20. Rapparinn Flóni verður á svæðinu og hæfileikabúnt úr Breiðholtinu með atriði,“ segir Guðrún og leynir ekki spenningnum.

En hvernig varð OKið til og hver var hvatinn að því? „Upphafið að framkvæmdinni má rekja til þess að við fengum hæsta styrk úr Barnamenningarsjóði í maí – og það hefur verið ansi mikið að gera síðan,“ segir hún glaðlega. Tekur fram að nafna hennar, Guðrún Lilja Gunnlaugsdóttir, sé sýningarstjóri og hún hafi hannað rýmið ásamt þeim Emblu Vigfúsdóttur leikjahönnuði, Tinnu Ottesen leikmyndahönnuði og listakonunni Shu Yi. Svo hafi krakkar í Breiðholti komið á rýnihópafundi og allt hafi verið borið undir þau, bæði teikningar og hugmyndir.

Svona lítur OKið út á teikningu.

Fyrirkomulag OKsins er að norskri fyrirmynd, að sögn Guðrúnar sem giskar á að margt muni koma unglingunum á óvart. „Verkefnið byggist á stafrænu skáldsögunni Norður eftir danska höfunda sem heita Camilla Hübbe og Rasmus Meisler og komu til Íslands 2016 til að skrifa bók. Þau voru frá upphafi í sambandi við okkur á Borgarbókasafninu og unnu bókina út frá íslenskri náttúru. Sagan byggir á norrænni goðafræði en er um loftslagsbreytingar eins og allt í dag. Bókin er opin á netinu og svo gefur Dimma bókaforlag hana út.“

Guðrún segir hönnuðina hafa fengið innblástur úr sögunni Nord og láti hugmyndir úr henni lifna við í OKinu. Þeir sem ekki hafi lesið söguna muni þó ekki taka eftir þeim. „Það eru meiri kveikjur og vísbendingar en eitthvað beint úr sögunni,“ útskýrir hún og segir mikla tilraunamennsku og tækni einkenna staðinn. Til dæmis sé gagnvirk innsetning eftir Shu Yi. „Hún Shu Yi er búin að búa til ask Yggdrasils, bæði úr birki úr Heiðmörk og lifandi plöntum, svo varpar hún gögnum frá Veðurstofunni um breytingar á sjávarmáli og útblæstri koltvíoxíðs á Íslandi frá 1950 til dagsins í dag og birtir líka spár til 2050. Krakkar þurfa að vinna saman til að fá allar upplýsingar,“ lýsir Guðrún og tekur líka fram að í salnum sé einnig aðstaða fyrir sviðslistafólk.

Hún segir ákveðna áskorun fyrir starfsfólk Gerðubergs að laða til sín unglingana. „Þeir eru oft sá hópur sem við missum úr bókasafninu. En OKið verður tileinkað ungu fólki um ókomna tíð og þar verður unnið með ýmis þemu, ár í senn.“