Á þessum degi árið 1979 kom út Off the Wall, fimmta breiðskífa Michaels Jackson og fyrsta sólóplatan hans. Hún er talin vera ein besta plata allra tíma og er á lista Rolling Stones yfir 500 bestu plötur sem gerðar hafa verið. Situr þar í sæti 36 en plata Marvin Gaye, What's Going On, situr í efsta sæti. Off the Wall hefur selst í tug milljóna eintaka og lög af plötunni eru enn spiluð.

Þetta var fyrsta plata Jacksons undir merkjum Epic Records en hann hafði áður verið á mála hjá Motown. Þetta var líka fyrsta plata sem Quincy Jones var á bak við en þeir hittust fyrst við gerð myndarinnar The Wiz. Lagahöfundar fyrir utan Jackson eru meðal annars Stevie Wonder, Paul McCartney, Rod Temperton, Tom Bahler og David Foster en Jackson samdi þrjú lög – meðal annars Don’t Stop ‘til You Get Enough.

Platan var tilnefnd til tveggja Grammy-verðlauna og var tekin inn í Grammy Hall of fame árið 2008.

Pétur Ben mikill aðdáandi Jacksons

Tónlistarmaðurinn Pétur Ben er aðdáandi Jacksons og syngur reglulega Billy Jean þegar hann treður upp. Það lag er reyndar ekki á Off the Wall. „Mér finnst þessi plata stórkostleg. Ég hlustaði á hana þegar ég var krakki og svo heyrir maður hana með öðrum eyrum í dag. Þarna er Quincy Jones að framleiða plötuna og þó ég leiti frekar í ákveðin lög en að hlusta á alla plötuna þá verður að segjast að þau eru alveg stórkostleg.“ Pétur segir að fingraför Jones séu mögnuð og útsendingarnar til fyrirmyndar. „Thriller er auðvitað platan sem hann er þekktastur fyrir en þarna er hæsti gæðaflokkur af músík, hljómi og útsendingum í öllum lögum.“

Pétur Ben, tónlistarmaður

Rauk upp vinsældarlistann

Upptökur fóru fram í Los Angeles og stóðu yfir frá fjórða desember til þriðja júní. Þegar platan kom út rauk hún upp vinsældarlistann og endaði sem þriðja mest selda plata ársins. Alls komu fimm smáskífur út. Sú fyrsta, Don’t Stop ‘til You Get Enough var fyrsta smáskífa Jacksons sem var ekki með Jackson Five á bak við sig. Platan inniheldur reyndar eiginlega ekkert nema smelli og fóru tíu lög af henni inn á topplista í Bandaríkjunum sem engum öðrum hafði tekist að gera.

Gagnrýnendur voru á einu máli um að platan væri stórkostleg. Hér heima var skrifað í Dagblaðið Vísi árið 1979 að hún væri uppfull af prýðisgóðum lögum. „Ég held að það sé ekki ofsagt að Off the Wall sé ein albesta popp/Soul platan sem hefur komið á markaðinn um langt skeið,“ skrifar gagnrýnandinn Ásgeir Tómasson.

„Gæðin á plötunni eru mikil. Þegar tíminn líður áttar fólk sig betur á því hversu mikil gæði eru á plötunni. Hann er auðvitað stórkostlegur söngvari og efnið sem er á plötunni er frábært,“ segir Pétur og bætir við. „Þegar tímanum líður fram áttar fólk sig alltaf betur á því hversu mikil gæði eru á plötunni og þess vegna stígur hún yfir mörk strauma og stefnu diskótímabilsins og er orðin klassísk" segir Pétur.