Oddný Halla Hauksdóttir fæddist 25. apríl 1949 í Reykjavík. Hún lést á Landspítalanum að morgni 23. nóvember. Útför hennar hefur farið fram.
Foreldrar hennar voru Haukur Snorrason og Ásta Kristjánsdóttir Wiium. Systkini hennar eru Snorri Hauksson, Stefán Örn Hauksson, Margrét Hafdís Hauksdóttir og Ásta Kristín Hauksdóttir.
Eftir landspróf var Oddný í námi við Menntaskólann í Reykjavík og fór síðar til London þar sem hún bjó og starfaði í fjölda ára.
Oddný giftist Graham Thomas Day árið 1977. Þau skildu. Hún var í sambúð með Guðmundi Ingólfssyni og síðar, eftir að leiðir þeirra skildu, með Sigurði Jónssyni. Þau slitu samvistir.
Síðustu tvo áratugi var bjó hún í Írabakka 12.
Við kveðjum með trega en minnumst með hlýhug og þakklæti hennar Oddnýjar Höllu, stóru systur okkar. Minnumst hennar frá barnæskunni sem glettins, síbrosandi orkubolta sem allt lék í höndunum á. Við munum það vel hvað hún var uppátækjasöm og ákveðin í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur. Hvernig hún á sinn vingjarnlega hátt ráðskaðist með okkur yngri systkini sín á meðan við vorum börn. Hve vel henni gekk í öllu námi, var vinsæl meðal bekkjarfélaganna og átti margar vinkonur. Við minnumst þess einnig hve hún var glæsileg sem ung kona og langt fram eftir aldri. Oddný, sem var náttúrubarn og sannur fulltrúi 1968 kynslóðarinnar, skeytti lítt um veraldlegt hjóm og sóttist aðeins eftir því að geta lifað í núinu. Hún var hæstánægð á meðan hún hafði nóg fyrir sig og kisurnar sínar. Er á leið ævina fékk hún fyllilega sinn skerf af mótlæti og það tók sinn toll. Við minnumst þess af hve miklu æðruleysi og ákveðni hún tók á veikindum sínum sem tóku hana allt of fljótt frá okkur. Þegar hún fann endalokin nálgast, sagðist hún ekki vera hrædd, þetta væru bara lokin á einu ferðalagi og upphafið á öðru.
Í hvert sinn sem við hugsum til þín, elsku Oddný, munum við ávallt sjá fyrir okkur brosið þitt bjarta og glettnina í dökkum augunum.
Blessuð sé minning þín.
Þótt að þú hverfir nú héðan á brott.
Þér munum við aldrei, aldrei gleyma.
Því hlýlega öllum gerðir þú gott,
Já góðar minningar hjörtun geyma.
S.H.
Snorri Hauksson
Stefán Örn Hauksson
Margrét Hafdís Hauksdóttir
Ásta Kristín Hauksdóttir