Einvígið er opið öllum dönsurum óháð dansskólum eða landamærum enda mætti til okkar pólskur dansari nánast upp úr þurru og sigraði í waacking-flokknum,“ segir Brynja Pétursdóttir, eigandi dansskóla Brynju Péturs, en hún hélt Street-danseinvígið, vikulangt partí með böttlum og erlendum gestakennurum.

Einvígið hefur verið haldið árlega frá árinu 2012 en þetta er eina keppnin á landinu fyrir dansara á framhaldsstigi í öllum street-dansstílum sem iðkaðir eru á landinu. Einvígið er vikulangt og er keppt í hiphop, dancehall, waacking, house, break, popping, top rock og ‘all styles’. Þátttakendur dansa einn á móti einum í 40 sekúndur hvor við tónlist sem er ekki ákveðin fyrir fram því DJ-inn stjórnar stemningunni. „Við fluttum inn heimsfrægan DJ sérstaklega til þess að spila á battlinu. Þekking DJ-sins skiptir öllu máli því öllum stílunum fylgir viss tónheimur. Hæfileikar dansaranna eru svo settir í brennidepil í ‘All Styles’ battlinu þar sem reynt er á breidd dansbakgrunns þeirra því þau þurfa að bregðast við tónlist frá ýmsum stefnum og gætu þurft að dansa við t.d. dancehall og funk í einu og sama battlinu,“ segir hún.

Andrúmsloftið var rafmagnað á battlinu, mikill stuðningur meðal dansaranna sem eru á aldrinum 16-29 ára og margir yngri dansarar að horfa á sem hlakka eflaust til að vera með þegar þau verða eldri. „Þetta eru einhverjir aktífustu og mest áberandi ungu dansarar á Íslandi í dag – það er bara þannig,“ segir Brynja en nemendur skólans eru orðnir yfir 600.