Ég hef verið með annan fótinn í tónlist síðan ég var átta ára og byrjaði í forskóla í Tónskóla Sigursveins,“ segir Matthías Pétursson tónskáld. Hann gaf út sína fyrstu plötu í lok árs 2019 eftir að hafa dreymt um það lengi að verða tónskáld. Platan ber heitið The Apple Store og er hún aðgengileg á öllum helstu streymisveitum.

„Ég hef alltaf haft áhuga á tónlist en ég fattaði í raun ekki að ég hefði áhuga á þessu fyrr en árið 2018,“ segir Matthías og bætir við að um það leyti hafi hann upplifað ánægju af lífinu að nýju eftir að hafa þjáðst af þunglyndi. „Núna nýt ég þess að semja og spila tónlist.“

Matthías er með BS-gráðu í rafmagnsverkfræði og tölvunarfræði ásamt því að vera með framhaldspróf í klassískum píanóleik. „Fyrir svona hálfu ári síðan ákvað ég markvisst að vinna í því að semja tónlist og vinna launalaust að því markmiði,“ segir Matthías.

„Þessi plata datt mér í hug að gæti verið sniðug til að gigga á börum. Ég spilaði hana á singer-songwriter (söngvara- og tónskálda) kvöldi á Gauknum og gekk vel. Mig grunaði að þessa plötu væri sæmilega einfalt að klára, samanborið við aðrar aðeins háfleygari hugmyndir mínar um síðari plötur,“ segir Matthías og tekur dæmi um hugmyndir sínar að kór- og póstrokk plötu.

„Ég hef eiginlega ætlað að verða tónskáld síðan ég var strákur, en ég fattaði það ekki fyrr en nýlega. Þannig er mál með vexti að alveg síðan ég var unglingur hef ég tekið upp hugmyndir að lögum og lagabútum sem mér dettur í hug og þegar ég var yngri bjóst ég við að þegar ég yrði nú alvöru tónskáld myndi ég geta notað það fyrir hugmyndir og unnið úr þeim,“ segir Matthías.

„Síðan er galdurinn náttúrlega sá að það er ekkert augnablik þar sem maður er „orðinn tónskáld“ eða ekkert augnablik frekar en annað ætti ég að segja, maður verður bara að setjast og semja. Ég hefði alveg eins getað gert það í menntaskóla, nógan hafði ég nú tímann þá, upptekinn í Call of Duty. En nú nýt ég góðs af þessu og nota þessar upptökur,“ útskýrir Matthías og bætir við að hann taki enn upp lagabúta þegar hann verður innblásinn. „Mörg ef ekki öll lögin á plötunni eru unnin upp úr svona spunahugmyndum.“

Á plötunni leikur Matthías á píanó og munnhörpu ásamt því að syngja. „Ég þorði ekki að syngja fyrir tvítugt því ég hélt að ég væri ekki nógu góður en síðan byrjaði ég að prófa mig áfram. Ég var lélegur í byrjun en batnaði alltaf hægt og hægt og er mun betri í dag, þökk sé því að syngja í kór. Ég er alls ekki frábær söngvari en er svona lala,“ segir Matthías og brosir sínu hlýja brosi.

Aðspurður að því hvort önnur plata sé á teikniborðinu segir Matthías að svo sé ekki. „Ekki plata heldur stefni ég að því að gera aðrar plötur,“ segir hann og leggur áherslu á fleirtöluna. „Mig langar að gera eins mikið og ég get á meðan þetta er enn þá skemmtilegt.“

Matthías segist nú þegar vera kominn langleiðina með næstu plötu. „Ég er nú þegar með hugmyndir að svona átta plötum. Platan sem ég er að vinna í núna er sóló píanóplata og ég er langt kominn með hana.“