Minningar.is er nýtilkominn vefur þar sem notendum býðst að birta minningargreinar og dánartilkynningar um látna ástvini gjaldfrjálst.

Hugmyndin kom til þegar Kjartan Örn Bogason, Kristinn Örn Kristinsson og Friðrik Snær Ómarsson, nemendur við hugbúnaðarverkefni í HR, unnu að lokaverkefni sínu vorið 2021.

„Þeir voru að velja sér lokaverkefni og vildu færa þessa gömlu góðu íslensku hefð til nútímans, á netið sem fólk nýtir sér mest í dag,“ segir Sirrý Arnardóttir, talsmaður verkefnisins. „Þetta er sér­íslenskt – að það séu skrifaðar minningargreinar um nánast alla landsmenn í íslensk blöð, og á sér langa sögu.“

Sirrý Arnardóttir, talsmaður verkefnisins
Fréttablaðið/Stefán

Sirrý segir að kveikjan að baki verkefninu hafi verið hve mikið lestur fólks hafi færst yfir á netið á undanförnum árum.

„Þeir ákváðu þess vegna að útbúa þessa síðu og sömdu við HR um það,“ segir Sirrý og bætir við að mikil leynd hafi verið yfir verkefninu. „Þetta er alveg nýtt. Það er hvergi annar svona vefur.“

Verkefnið fékk síðan fjármögnun og er vefurinn nú kominn í loftið en Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, opnaði hann við formlega athöfn á Bessastöðum.

„Þegar ég var beðin um að koma að verkefninu þá fannst mér svo fallegt að þetta er einmitt það sem íslenskt samfélag þarf á að halda,“ segir Sirrý. „Ungt menntafólk sem tekur þjóðararf, sem minningargreinar eru, og útfærir hann með nútímahætti. Þarna haldast í hendur gömul hefð og nýtt íslenskt hugvit.“

Lifandi vefur

Sirrý segir að viðtökur við vefnum hafi verið góðar.

„Þessu hefur verið gríðarlega vel tekið. Síðan við settum þetta í loftið hefur verið mikill straumur inn á síðuna bæði til að stofna minningarsíður um ástvini sem nýlega hafa fallið frá, eða fyrir mörgum árum.“

Þá segir Sirrý að vefurinn bjóði upp á möguleika sem skorti á prenti.

„Að geta sett inn fullt af myndum, leyfir ættingjum og vinum að byggja upp safn af minningum um látna ástvini,“ segir hún. „Þetta er lifandi vefur, því fólk getur komið inn og bætt inn greinum og myndum síðar, sent kveðjur eða lesið sér til um hagnýt atriði varðandi andlát. Þegar þetta er á prenti þarf að miða við einhverja hámarkslengd sem er ekki fyrirstaða á vefnum. Og fólk fagnar því að geta birt dánartilkynningar og hlekki á streymi frá útförum, allt gjaldfrjálst og einfalt í notkun.“