Við reynum að koma víða við og hafa fólk með okkur, fá það til að senda inn greinar og ábendingar um ýmis málefni, ásamt myndum,“ segir Silja Ástudóttir, verkefna- og ritstýra, um fyrirkomulag hins nýja miðils strandir.is.

Hún nefnir til dæmis að Heygarðshornið sé fyrir fréttir úr heimi bændanna á svæðinu og Bryggjupollinn með efni frá sjávarsíðunni, um aflabrögð og annað slíkt.

Lénið var til

Vefurinn er rekinn af fjölskyldufyrirtækinu Sýslinu verkstöð ehf. sem er miðstöð skapandi greina á Ströndum, að sögn Silju. Lengi vel var öflugur héraðsfréttavefur á léninu strandir.is en starfsemi hans lagðist af fyrir nokkrum árum.

„Þessi vefur tengist þeim gamla ekki beint, að frátöldu léninu og hugmyndafræðinni: að deila fréttum og mannlífsmyndum af Ströndum,“ útskýrir hún og segir strandir.is leggja sig fram um að hafa eitthvað fyrir alla. Nú þegar eru komnar inn fréttir og myndir úr skólastarfi, upplýsingar um félagslíf, viðtöl, fréttir af fuglum, þar sem kemur fram að bæði skógarþrösturinn og tjaldurinn séu komnir – fyrir utan upplýsingar um þjónustu á svæðinu, sögulegan fróðleik og fleira.

„Við erum í samtali við fólk í öllum sveitarfélögunum á Ströndum, það net á vonandi bara eftir þéttast, því það er mikilvægt að sem flestir séu með okkur,“ segir Silja og á þar við íbúa Árneshrepps, Kaldrananeshrepps sem nær yfir Bjarnarfjörð og Drangsnes – og Strandabyggðar, sem Hólmavík er hluti af.

„Við munum einblína á það sem er að gerast á þessu svæði, sérstaklega það góða og skemmtilega. Það er fullt af frábæru, skapandi og sniðugu fólki hér að gera spennandi hluti – ég vil segja frá því,“ segir hún.

„Verkefnið er styrkt af Öndvegissjóði Brothættra byggða en bæði Strandabyggð og Árneshreppur eru partur af því byggðaþróunarverkefni.“

Fór norður í öryggið

Silja flutti til Hólmavíkur fyrir ári en bjó áður í Reykjavík. Var þó tengd Ströndunum.

„Ég flutti með fjölskyldu minni á Drangsnes þegar ég var 11 ára og síðar á Hólmavík en hef að megninu til búið í Reykjavík frá því ég kláraði grunnskóla. Ég var í skiptinámi á Spáni þegar COVID-19 kom til sögunnar og ákvað að fara norður í öryggið í nokkrar vikur. Nokkrar vikur urðu að mánuðum og nú er komið ár – það er svo gott að vera í kyrrðinni á Ströndum.“

Hún lítur björtum augum á það verkefni að halda þessum nýja vef lifandi og kveðst vona að íbúarnir verði duglegir að taka þátt þannig að síðan verði svolítið sjálfbær. Á næstu vikum bætist svo vefverslun við síðuna þar sem seld verður hönnun og handverk af Ströndum.

„Það er verðmætt fyrir Strandafólk og einnig brottflutta að eignast þennan vettvang fyrir skoðanaskipti og til að fylgjast með því sem er að gerast á svæðinu. Myndir segja líka sögur,“ bendir hún á, „og það er erfitt að taka ljótar myndir á Ströndum.“