Sólin skín á okkur hér í Hafnarhólmanum þar sem við ætlum að vígja Nýlundabúðina í dag, föstudaginn 7. ágúst klukkan 17, en getum ekki haft hana galopna út af veirunni,“ segir Elín Elísabet Einarsdóttir listakona. Hún talar þar einnig fyrir munn samstarfskonunnar, Ránar Flygenring. Þær hafa unnið saman áður, undir merkjum Teikniþjónustunnar Jafnóðum, þar taka þær að sér hraðteikningu viðburða, fanga stemninguna og hengja myndirnar upp jafnharðan.

Nú eru þær staddar á Borgarfirði eystra og ætla að vera þar að minnsta kosti næstu tvær vikurnar, að sögn Elínar Elísabetar. „Það eru allir velkomnir á vígsluna í dag – á netinu. Við erum með virkan Instagram-reikning @nylundabudin þar sem hægt er að fylgjast með. Það verða ræðuhöld, klippt á borða, vettvangsferð og lundaskoðun fyrir alla fjölskylduna,“ lýsir hún en tekur fram að vörurnar í Nýlundabúðinni séu ekki til sölu svo hún sé ekki búð í algengasta skilningi þess orðs. „Við Rán erum í vöruþróun og hér er það sem kallast ætti „opin vinnustofa“ en hún er lokuð vegna veirusmitvarna. Gestir mega ekki koma inn, einungis gægjast inn um gættina. Þetta er allt svolítið þversagnakennt hjá okkur.“

Þær eru ekki með nógu marga handleggi til að geta haldið á öllum stöfunum í einu.

Elín Elísabet segir fólk hins vegar mega ganga óhindrað um Hafnarhólma. „Hér er mjög fín aðstaða til að skoða lundann áður en hann fer úr hólmanum, þetta eru síðustu dagarnir hans þetta árið. Við erum hér til staðar til að kveðja hann þegar hann er kominn með nóg af nálægðinni við manninn í bili og heldur til hafs. Við sjáum einn og einn koma enn þá og skottast ofan í holur með fisk í gogginum handa pysjunum sínum. Annars eru þeir á sjónum allt í kring um hólmann á daginn og setjast upp í hann á kvöldin. Í gær hellirigndi og þá voru þeir allir í hólmanum en í blíðunni í dag (í gær) eru þeir allir úti. Pysjurnar eru áfram í holunum þó að foreldrarnir yfirgefi þær og þykist hafa lokið sínu uppeldishlutverki. Á endanum fattar pysjan að það er enginn að koma með mat handa henni og hún verður að græja hann sjálf. Það er bara harða leiðin. Ég hugsa að allir lundar séu með einhvers konar bernskutráma eftir þetta.“

Listakonurnar búa í sátt og samlyndi við lundann, að sögn Elínar Elísabetar. „Við fengum góðfúslegt leyfi hjá sveitarfélaginu og varðmanni hólmans, henni Helgu á Bakka, til að breyta fuglaskoðunarhúsinu í Nýlundabúð og ætlum að setja skilti á húsið þess efnis. Erum með faglegan heimamann í því og treystum honum fullkomlega.“

Sem dæmi um varning í Nýlundabúðinni nefnir Elín Elísabet póstkort, bæklinga, teikningar og styttur, já og trélunda til að hafa í garðinum hjá sér, „ef maður vill laða lundavarp í hann,“ eins og hún orðar það. „Svo er óljóst hvað verður um þessa vöruþróun hjá okkur, það er enn bæði opið og lokað líka. Okkar ásetningur er sá að endurvekja fyrri ímynd lundans, því orðið lundabúð hefur fengið á sig neikvætt orðspor vegna minjagripasölunnar. En lundinn er svo fínn fugl að hann á betra skilið. Hann er bara lítill og nettur sjófugl sem hefur ekkert gert af sér. Við viljum hefja hann aftur til vegs og virðingar.“