Það er þessi svartigaldur sem samtíminn okkar er dálítið grundvallaður á, sem varð mér innblástur,“ segir Steinunn Gunnlaugsdóttir myndlistarkona dularfull um sýninguna Glópagull: Þjóðsaga sem hún opnar í Midpunkt í Hamraborg næsta föstudag. „Ég er dálítið að rannsaka tvær vísindaaðferðir sem ég vil ekki gefa upp núna, því ég vil að fólk uppgötvi þær á sýningunni – en þær spinnast út frá þjóðsögunni almennt – þeirri hefð að sjá hlutina sem galdur og óræð öfl.“

Engin þjóðsaga er svo slæm að ekki sé eitthvað gott í henni líka – og öfugt, að mati Steinunnar. „Ég vil meina að þjóðsögurnar hafi ýmislegt að segja okkur og í sýningunni beiti ég mætti þeirra á vísindi samtímans. Þar koma ýmsar forynjur fram – en ekki endilega tröll eins og við þekkjum þau úr sögunum. Áður fyrr trúði fólk á drauga en í dag trúir fólk á rafmagn þó að það sé jafn ósýnilegt og draugarnir. Þetta eru þannig element. Fyrir tilstilli rafmagnsins getum við beitt göldrum og í gamla daga varaðist fólk hættur af völdum drauga – eða gekk í gildrur.“

Steinunn vinnur þvert á miðla og gerir skúlptúra, myndbönd, hljóðverk, teikningar, gjörninga og innsetningar. Hún er mörgum kunn fyrir gjörninga sína og höggmyndir, nefna má Litlu hafpulsuna sem var í Reykjavíkurtjörn veturinn 2018.

Berlín var heimaborg Steinunnar um tíma og hún fór í mastersnám til Beirút í Líbanon – af öllum stöðum. Hvað kom til? „Það kom til vegna áhuga míns á Mið-Austurlöndum. Þetta var ekki hefðbundið mastersnám, heldur opið nám á masterstigi.

Ég var bara í Beirút í fjóra mánuði og planaði aldrei að vera lengur. Á þeim tíma var ástandið í Sýrlandi byrjað að verða virkilega flókið, því fylgdi mikil óvissa og mikið var um sjálfsmorðssprengingar. Þess vegna var námið opið og fólk gat komið og farið þegar það vildi.

En það var ótrúlega magnað að vera þarna og ég lærði heilmikið um arabíska list. Kynntist líka frábæru fólki, meðal annars sýrlenskum listamönnum sem höfðu flúið yfir landamærin. Þetta var áhrifamikil dvöl og hún víkkaði sjóndeildarhringinn.“