Í nýrri íslenskri prjónabók eru teknar saman fjölbreyttar uppskriftir að sokkaprjóni og formálinn er úr ólíklegri átt.

Hönnuðurinn Hélène Magnússon gaf nýlega út nýja prjónabók, Sokkar frá Íslandi, sem inniheldur eitt og annað um sögu sokkaprjóns á Íslandi og uppskriftir að séríslenskum sokkapörum. Hélène hefur áður gefið út verðlaunaprjónabækur, en þetta er í fyrsta skipti sem hún gefur út bók á eigin spýtur.

„Ég fór aðeins að rannsaka sokkana á Íslandi, til dæmis þá sem má finna á söfnum,“ segir Hélène. „Ég hef áður gefið út prjónabækur en ákvað að taka sokka fyrir núna því þeir eru bæði einfaldir og skemmtilegir. Það var rosa spennandi að afhjúpa söguna á bak við sokkana og reyna að setja nútímablæ á þá.“

Hélène segist hafa reynt að hafa uppskriftirnar aðgengilegar fyrir byrjendur og lengra komna. Bókin inniheldur sautján sokkauppskriftir með sterkum íslenskum blæ, en Hélène sótti innblástur í gamla íslenska sokka, eldgamlar uppskriftir, en einnig í hefðbundna íslenska vettlinga. Sokkarnir eru prjónaðir að ofan eða frá tánum, með ansi mörgum afbrigðum á hælum og tám, og alls kyns aðferðir notaðar.

„Ein uppskriftin í bókinni er vestfirskir sokkar, sem er bara eitthvað sem ég bjó til,“ segir Hélène og hlær. „Laufaviðarvettlingar eru til og ég dró innblásturinn frá þeim. Maður sér strax hvaðan innblásturinn kemur!“

Sokkabandið sem notað er í bókinni, Katla Sokkaband, er hannað af Hélène sjálfri fyrir sokkaprjón, en það er þriðja garnið sem hún hefur framleitt úr sérvalinni íslenskri lambsull.

„Það er ekki mikið til af fíngerðu íslensku sokkabandi á Íslandi svo ég bjó það sjálf til úr hágæða íslenskri lambsull sem ég sérvel fyrir mýktina.“

Prjónarnir sameina

Formáli bókarinnar stingur aðeins í stúf en hann er af dýrari kantinum. Hann er skrifaður af ítalska blaðamanninum og stjórnmálarýninum Lorettu Napoleoni, sem er meðal annars þekkt fyrir bækur sínar um hryðjuverkastarfsemi. Hvernig kom það nú til?

„Eitt af því sem mér finnst svo gaman við að prjóna er að maður kynnist fólki úr svo ólíkum áttum,“ segir Hélène. „Við Loretta kynntumst í viðtali sem tekið var við okkur báðar þegar hún gaf út sína eigin fyrstu prjónabók, The Power of Knitting. Hún hefur prjónað alla sína ævi og skrifaði bókina þegar hún gekk í gegnum persónulega erfiðleika.“

Það verður varla íslenskara en prjónasokkar og bárujárn.
Hélène reynir að setja eigið stílbragð á gamlar uppskriftir.
Ítalski blaðamaðurinn Loretta Napoleoni er einnig mikil prjónakona og skrifar formála bókarinnar.