Það var æðislegt að mæta í skólann og miklu auðveldara að sinna námi hér en heima. Svo var gaman að hitta vinina,“ segir Svanbert Addi Stefánsson, nemandi í Verslunarskólanum, eftir fyrsta daginn í kennslustofu í langan tíma. „Við mættum í skólann í byrjun hausts en höfum verið í fjarnámi síðan. Kynntumst því líka á vorönninni,“ segir hann en er þó ekkert voða neikvæður út í fjarnámið. „Það er auðvitað leiðinlegra, mér gekk samt þokkalega, enda líkamsrækt og sund lokað og það eina sem var í boði var að læra. Ég er á þriðja ári og ætla að útskrifast í vor svo það er að duga eða drepast.“

Svanberg Addi segir alla vera með grímur í skólastofunni og meter sé á milli borða. „Svo er verið að opna fyrir matsölu á netinu sem við getum verslað í, það verður bara spennandi,“ segir hann.

Nú er Versló að keppa við Fjölbraut á Suðurnesjum í Gettu betur annað kvöld, Svanberg Addi kveðst vera skuggaþjálfari Verslóliðsins og fyrsti varamaður. „Æfingar hafa verið óhefðbundnar eins og flest annað á þessum tímum. Við vorum á Zoom í nokkrar vikur en fáum að vera í skólanum aðeins fram á kvöld og nú reynum við að gefa í því við erum spennt fyrir keppninni.“