Þetta er geggjað og gefur mér færi á að þræða hinar ýmsu leiðir utan þéttbýlisins. Ég er svo mikill náttúrukarl og fannst alveg glatað að komast ekki út fyrir götur bæjarins,“ segir Seyðfirðingurinn Arnar Klemensson um þá byltingu sem varð á hans högum nýlega þegar Lionsfólk færði honum torfæruhjólastól. Austurfrétt sagði frá.

Arnar kveðst hafa fæðst með klofinn hrygg. „Þannig að ég hef verið lamaður alla mína tíð – hunds og kattar. Er fæddur hér á Seyðisfirði og uppalinn en fór suður og var þar meira og minna í þrjátíu ár. Svo missti ég vinnuna í bænum og var konulaus, barnlaus og húslaus svo ég ákvað að fara heim aftur. Hér fékk ég þak yfir höfuðið og líka vinnu. Er við gæslu í ferjunni og skemmtiferðaskipunum, en þau eru ekkert á ferðinni í sumar. Ferjan kemur bara einu sinni í viku yfir sumarið en fjölgar ferðum upp í tvær á viku þegar vetraráætlunin dettur inn. Ég fer ekki um borð en er nánast alls staðar annars staðar, bæði úti og inni. Eftirlit mitt felst í að athuga hvort fólk sé með passa, þegar það er að smella sér inn í ferjuna, horfa í myndavélar og fleira.“

Yrði marga daga yfir heiðina

Þó að Seyðisfjörður sé fremur þröngur segir Arnar hann bjóða upp á mikla möguleika fyrir sig til skemmtiferða eftir að aðstæður hans breyttust. Kemst hann kannski yfir Fjarðarheiði á hjólinu? „Nei, það fer bara á átta kílómetra hraða, ekki séns ég mundi nenna því, ég yrði marga daga!“ svarar hann hlæjandi.

Hingað til kveðst Arnar hafa farið ferða sinn á gamalli skutlu og rekur aðdraganda þess að hann eignaðist torfæruhjólastólinn: „Einn daginn síðasta vetur festi ég mig, sem oftar, á skutlunni og kom illa pirraður heim eftir langa mæðu. Fór í tölvuna, gúglaði fjórhóladrifna skutlu og setti mynd í djóki á fésbók og sagði: „Væri ekki karlinn flottur á þessu?“ eða eitthvað álíka. Þá bara fór allt í gang. Seyðfirsk kona sem býr í Reykjavík byrjaði að safna á fésbók og fólk fór að leggja inn á hana hægri, vinstri. Þannig gekk í hálfan mánuð, þá tók Lions hér við keflinu. Sjálfsbjörg styrkti verkefnið, bæjarbúar, vinir og vandamenn. Ótrúlega fallegt dæmi.“

Nú stoppar Arnar ekki, að eigin sögn. „Ég er ekki að grínast. Að komast ekkert út fyrir veg, það var alveg pína. Ég á líka hund sem þarf að hreyfa. Nú kemst ég um ótal slóða en ég fer ekki út í náttúruna til að spóla og eyðileggja, þó hjólið sé á ruddadekkjum og fjórhjóladrifið. Ég verð ekki fastur á þessu, eins og hinu. Það var nóg að það væri spáð snjó, þá komst ég ekkert á skutlunni. Ég hlakka eiginlega bara til að fá snjóinn í haust. Svo er allt á þessu hjóli. Lions lét stækka dekkin, breyta batteríum og setja spil. Þá get ég dregið bílana þegar þeir festast í vetur! Ég segi svona!“

Gleymir stundum símanum

Spurður hvort auðvelt sé fyrir hann að koma sér fyrir á nýja farartækinu svarar Arnar: „Já, einu sinni var ég samt næstum dottinn á hausinn en náði að grípa í einhvern fjandann.“

Þú ert náttúrlega alltaf með síma á þér? „Skooo, stundum gleymi ég honum. Oftast þegar ég hef verið fastur eða batteríslaus hefur hann óvart verið heima.“

Ertu ekki með öryggishnapp heldur? „Nei, það hef ég aldrei verið. Hef ekkert við svoleiðis að gera.“

Inntur eftir aldri kveðst Arnar vera 49 ára og bætir við hress: „Það er talað um að fólk eflist oft um fimmtugt. Það eru 25 mínútur í það hjá mér!“