Mér leiddist vikurnar sem ég var alveg heima en ég lifði þær af, segir Benedikt Máni Lúðvíksson sem á morgun verður meðal nýstúdenta frá Menntaskólanum við Sund. Hann er einn þeirra námsmanna sem hafa unnið vel að undanförnu og notið handleiðslu kennara sinna þótt menntastofnanir væru lokaðar vikum saman á vorönninni vegna heimsfaraldursins.

En nú er stórum áfanga náð og gleðin við völd. „Ég var aldrei í hættu á að sökkva ofan í djúpa holu, heldur hélt bara áfram að læra,“ segir Benedikt. Hann kveðst meira að segja hafa verið orðinn nokkuð öruggur um að ná öllum fögum og halda beinni braut þegar COVID-ástandið byrjaði. „Það er svo mikið símat í MS og því voru ekki mörg próf sem ég þurfti að taka undir lokin,“ segir hann til skýringar. „Ég lærði gegnum netið og tók próf þar líka. Það var allt í lagi en ég hefði samt frekar viljað vera í skólanum. Það hefði verið skemmtilegra. Að vísu er auðveldara að taka próf heima því þar hefur maður í raun gögnin hjá sér.“

Benedikt var á náttúrufræðibraut í MS með áherslu á eðlis- og stærðfræði. Hann segist hafa verið í samskiptum við bekkjarfélaga, sem voru að fást við sömu námsgreinar, eftir að skólanum var lokað. „Við hittumst í byrjun og lærðum saman en hættum því svo og vorum bara á spjalli gegnum netið,“ lýsir hann. Kennarana kveðst hann ekki hafa séð frá síðasta skóladegi fyrir lokun, nema í tölvunni, þeir hafi verið fljótir að tileinka sér tæknina og streymt fyrirlestrum.

Þrír menntaskólavetur eru nú að baki hjá Benedikt og það er ekki laust við söknuð hjá honum. „Þetta er búið að vera mjög gaman, ég hef kynnst fullt af krökkum og félagslífið hefur verið gott. Það voru oft haldnar þemavikur og þær enduðu með böllum. Ég tók þátt í öllu en var samt ekki í neinum nefndum eða ráðum.“

Útskriftarathöfnin verður í Háskólabíói, haldin með sérstöku fyrirkomulagi vegna fjöldatakmarkana. „Þar mega bara mæta útskriftarnemendur og kennarar af hverri braut fyrir sig í einu – engir foreldrar,“ upplýsir Benedikt. En hver er svo framtíðarbrautin? „Ég hef verið að hugsa um hana síðustu vikur og býst við að byrja í háskóla í haust en er ekki búinn að sækja um. Það yrði þá í verkfræði, efnafræði eða einhverri annarri vísindagrein sem tengist eðlisfræði/stærðfræðibrautinni.“

Benedikt er einn þeirra heppnu sem er kominn með sumarvinnu og hann er meira að segja þegar byrjaður. Vinnustaðurinn er ekkert slor, heldur eitt flottasta eldhús norðan Alpafjalla, að einhvern tíma var talið, nefnilega eldhús Orkuveitu Reykjavíkur. „Við vorum þrjú að byrja á þriðjudaginn og Benedikt Jónsson yfirmatreiðslumaður tók vel á móti okkur,“ segir hann. „Þótt ég sé nú bara búinn að vera í fáa daga þá finnst mér gaman og líst mjög vel á þetta,“ bætir hann við brosandi.