Tímamót

Nýtt verk Gerði til heiðurs

Nokkrir listvinir Kópavogskirkju hafa ákveðið að efna til styrktartónleika annað kvöld vegna stórviðgerða á hinum steindu gluggum kirkjunnar eftir Gerði Helgadóttur.

Gluggar kirkjunnar eru tilkomumiklir.

Martial Naredau flautuleikari gerði sér lítið fyrir og samdi verk sem frumflutt verður á tónleikum í Kópavogskirkju annað kvöld til fjáröflunar fyrir viðgerðir á gluggum kirkjunnar. „Hún María Jónsdóttir söngkona, sem sér um tónleikana, hafði samband við mig í haust og bað mig að taka þátt,“ segir hann. „Þar sem tónskáldið John Speight samdi verk til heiðurs Gerði vegna viðgerða á gluggum Skálholtskirkju datt mér í hug að gera slíkt hið sama fyrir Kópavogskirkju. Verkið mitt heitir Gerður og er skrifað með vini mína á Kársnesinu í huga fyrir flautu, fiðlu, lágfiðlu, hörpu, orgel og píanó. Kaflarnir heita Austur, Vestur, Norður og Suður og taka mið af gluggunum, til dæmis er norðurglugginn dökkur og það litar kaflann Norður.“ Martial segir einn hvatann að verkinu vera þann að Gerður hafi starfað mikið í hans gamla heimalandi, Frakklandi.

Gunnar Guðbjörnsson er einn söngvaranna sem koma fram á tónleikunum. Hann kveðst hafa átt heima á Kópavogsbrautinni fyrstu sjö árin sín. „Kópavogskirkja er svolítið kirkjan mín því ein af fyrstu minningunum er heimsókn í hana,“ segir hann. „Konan mín vinnur líka í Gerðarsafni og ég á margar ferðir þangað, þá lít ég til kirkjunnar sem ég hef alltaf borið tilfinningar til.“

Með tónleikunum leggst listafólkið á sveif með sóknarnefndinni sem er með söfnunarátak enda viðgerðirnar kostnaðarsamar. Miðaverð er 3.500 krónur og allur ágóði rennur óskertur til verkefnisins.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Tímamót

Bíllaus fagna tíu ára starfi

Merkisatburðir

Fyrsta blökkukonan krýnd fegurðardrottning

Auglýsing

Nýjast

Fyrst á svið fyrir 60 árum

Yrkir ádrepur af ýmsu tagi

Okkur fannst ótvíræð þörf fyrir þennan skóla

Aldarafmælis minnst með flutningi ljóða við ný lög

Hrókurinn fagnar 20 árum með stórmóti

Listin lengst af hliðargrein

Auglýsing