Aud Lise Norheim er ekki einungis sendiherra Noregs á Íslandi heldur líka lunkin að prjóna. Síðan hún kom til landsins í september 2019 hefur hún prjónað sautján lopapeysur og er átjánda peysan pöntun frá breska sendiherranum, Bryony Mathew. Aud Lise fór nýlega af stað með átak þar sem hún tengir prjónaskap við Reykjavík Pride og kynnir nú sérstakan gleðigöngutrefil sem hefur fengið heitið Stígur.

Aud Lise með regnbogatrefilinn Stíg.

Hugmyndin að treflinum kom til í sendiráðinu þegar leitast var eftir hugmyndum til að gera eitthvað fyrir Pride.

„Það var ekki mikill tími til stefnu svo okkur datt í hug að gera trefil,“ útskýrir Aud Lise. „Við höfðum samband við Védísi Jónsdóttur, hönnuð hjá Ístex, sem hjálpaði mér að gera það sem ég hef núna prjónað.“

Aud Lise segir trefilinn henta vel þeim sem hafa áhuga á að taka upp prjónaskap.

„Hann er einfaldur að prjóna og í fallegum regnbogalitum auk þess sem íslenska ullin er góð viðureignar. Þau sem hafa áhuga gætu hæglega klárað trefilinn fyrir Gleðigönguna.“

Þrátt fyrir að verkefnið sé skemmtilegt leggur Aud Lise áherslu á alvarleikann að baki málefninu.

„Við þurfum að standa vörð um réttindi hinsegin fólks og LGBTQ-samfélagsins. Þetta hefur allt verið sett í alvarlegra samhengi eftir atburðina í Osló 25. júní síðastliðinn,“ segir hún. „Þannig erum við að reyna að tengja skemmtilegan prjónaskap við alvarlega stöðu hinsegin fólks.“

Í tilefni af verkefninu mun Aud Lise gefa Degi B. Eggertssyni borgarstjóra Reykjavíkur trefil í dag. Uppskriftina að treflinum má finna á heimasíðu norska sendiráðsins á Íslandi.