Hinn keltneski þráður í uppruna Íslendinga er Bjarna Harðarsyni bóksala hugstæður, eftir að hafa rýnt í Njálu – og ekki síður Landnámu. Rótina að ófriði og blóðhefndum sem þar koma við sögu telur hann vera þá að ólíkum kynþáttum hafi lostið saman. Þetta áformar hann að útskýra í uppistandi í hellunum við Hellu á föstudags- og laugardagskvöld, 6. og 7. ágúst, og segir þá rúmgóða svo þar ætti að vera hægt að halda fjarlægð milli fólks.

„Þessir hellar tengjast sterkt hinni keltnesku byggð á Suðurlandi og ég vil vekja athygli á því að Njála er í raun bók um kynþáttaóeirðir. Því hefur síendurtekinn lestur minn á henni leitt mig að.“

Krosshefndir og rugl

Bjarni kveðst oft hafa velt fyrir sér hvers vegna stöðugt hafi verið reynt að etja ófriði við Gunnar á Hlíðarenda af litlu og jafnvel engu tilefni en í Landnámu komi skýringin fram – hann sé í beinan karllegg af írskri konungaætt en ekki norrænum eins og oft sé látið í veðri vaka. „Baugur, langafi Gunnars, sem Baugsstaðir í Flóa eru kenndir við, var írskur prins,“ útskýrir Bjarni.

„Þrír synir Baugs lenda í átökum við norræna menn. Allt byrjar með því að menn koma utan af Eyrum að ferjustað í Flóanum. Þetta eru tveir hópar, annars vegar frá Hlíðarenda í Fljótshlíð, sem var eitt flottasta býli héraðsins þá og lengi síðar, og hins vegar frá Bólstað, sem er inni á afrétti í dag. Þarna kemur frumeðli Íslendinga strax í ljós því þeir kunna ekki að standa í biðröð og báðir hóparnir ætla fyrstir yfir Þjórsá. Þarna heggur Steinn hinn snjalli frá Hlíðarenda Sigmund Sighvatsson frá Bólstað banahöggi. Steinn er af þessari írsku ætt en Sigmundur af norrænni.“

Eftir þetta segir Bjarni um krosshefndir að ræða, samkvæmt Landnámu.

„Menn bregða á hina klassísku lausn þessa tíma að beinlínis fara hver að öðrum og drepa. Gunnar Baugsson, afi Gunnars á Hlíðarenda, var glæsimenni og eftir að hafa hefnt Steins, bróður síns, reið hann teinréttur heim á leið, íklæddur blárri skikkju, uns hann hneig örendur niður. Þarna fór maður sem brá hvorki við sár né bana. Það er ekki hægt annað en hrífast þegar maður les þetta á öðrum bjór en allsgáðum blöskrar manni ruglið.“

Hjónabandsmál koma líka við sögu, að sögn Bjarna.

„Þegar maður veit hversu súr sá jarðvegur var sem hjónaband foreldra Gunnars á Hlíðarenda spratt úr, fer maður að skilja betur togstreituna í lífi hans. Þó að minningu hans sé haldið á lofti sem norrænnar, bjartrar hetju og hann eigi vissulega norrænar rætur þá er hann af húsi og kynþætti Kjarvals Írakonungs í karllegg.“

Fjölmenning frá byrjun

Bjarni segir upplifun að koma í hina fornu hella, sem hafi verið notaðir gegnum aldirnar og beri menjar frá ýmsum tímum.

„Við getum ekki fullyrt að Keltar hafi búið akkúrat þarna. Hitt er ljóst að við Íslendingar erum ekki af einsleitum norrænum uppruna, heldur komu landnemarnir víða að og við erum í raun þúsund ára fjölmenningarsamfélag.“

Í framhaldinu segir Bjarni mér að hellar séu víða bæði í Rangárvalla- og Árnessýslu og einnig löng neðanjarðargöng frá náttúrunnar hendi.

„Þannig held ég að hægt sé að fara ofan í helli á Þingvöllum og koma upp nærri Keflavíkurflugvelli – þá með gullsand í skónum!“