Í gær voru liðin níutíu ár frá því að Fossvogskirkjugarður var tekinn í notkun. Þá voru Gunnar Hinriksson vefari og Ólafur Þorkelsson, barn á sjöunda ári, lagðir til hinstu hvílu í garðinum. Útförin frá Dómkirkjunni var fjölmenn og lagði mikill fjöldi fólks leið sína að garðinum til að verða vitni að fyrstu jarðarförinni. Á eftir tveimur líkvögnum fylgdu hátt í fimmtíu bílar.

Í tilefni af stórafmæli garðsins verður boðið upp á sögugöngu sunnudaginn 4. september þar sem Stefán Pálsson sagnfræðingur mun leiða gesti um garðinn og greina frá sögu hans í stórum dráttum. Stefáni innan handar verða reyndir starfsmenn garðsins sem þekkja til gróðurfars og skipulags hans – og ekki veitir af.

Sýningargluggi í ræktunarsögu

„Kirkjugarðarnir okkar skipta afskaplega miklu máli í ræktunarsögu landsins,“ útskýrir Stefán. „Þetta eru kannski fyrstu reitirnir sem eru virkilega girtir af svo að búsmali getur ekki bara farið um og látið éta allt sem plantað er.“

Í Fossvogskirkjugarði fóru aðstandendur, oft í óþökk kirkjugarðsins, að gróðursetja tré og plöntur á leiði ástvina.

„Grenitrén þar eru komin upp úr öllu valdi og eru einhver hæstu tré sem finnast,“ segir Stefán og hlær. „Menn trúðu ekki á þessum tíma að það væri hægt að ná svona sprettu á tré á Íslandi yfirhöfuð. Kirkjugarðarnir verða þannig ákveðinn sýningargluggi og kennslustofa á því hvað sé hægt að gera í ræktunarmálum.“

Íslendingar eru góðir í jarðarförum

Fossvogskirkjugarður hefur síðan orðið vinsæll fyrir fólk sem sækir í útivist í fallegu og rólegu umhverfi. Þótt Stefán sé sjálfur búsettur í Hlíðunum segist hann ekki nýta sér garðinn jafnmikið og hann ætti að gera.

Stefán Pálsson sagnfræðingur

„Það er pínu kómískt hvað garðurinn er orðinn miðsvæðis í dag, því hann var náttúrlega út úr öllu þegar hann var tekinn í notkun. Margir kvörtuðu sáran yfir því að hann væri lengst úti í sveit,“ útskýrir Stefán en segir það á vissan hátt með ráðum gert. „Menn horfðu til þess að greftrunarsiðirnir með kirkjugarðinum við Suðurgötu, þar sem hersingin gekk frá Dómkirkjunni og upp í garð – þetta var bara sprungið. Reykjavík var orðin svo stór.“

Þannig sáu stjórnendur kirkjugarðs- og safnaðarmálanna fyrir sér að það yrði ákveðið rof í þeirri hefð með því að fara lengra í burt. Þar myndi þorri fólks kveðja hinn látna við kirkjudyr en smærri og persónulegri hópur myndi svo fara til greftrunar.

„Fossvogskirkjugarður var í raun frekar módernísk tilraun til að einfalda utanumhald útfara sem stjórnendum þóttu of flóknar og kostnaðarsamar,“ segir Stefán. „Eftir að Fossvogskirkja er tekin í notkun eftir stríð sáu menn hreinlega fyrir sér að til þess að gera hlutina enn minni og hagkvæmari mætti spila tónlist og söng af segulböndum.“

Þær tilraunir gengu ekki eftir enda er fólk hefðafast þegar kemur að rótgrónum siðum, sér í lagi jafn veigamikla siði og útfarir eru.

„Íslendingar eru mjög góðir í jarðarförum. Við mætum lítið í kirkju, en þegar það eru jarðarfarir þá erum við alveg á útopnu.“

Plássfrekir gestir

Þá stefnir Stefán á að koma inn á aðra hluti tengda kirkjugarðinum á borð við einstaklingshyggju Íslendinga.

„Íslendingar eru einstaklingshyggjufólk, bókstaflega fram yfir gröf og dauða,“ segir Stefán. „Menn vildu alltaf steypa kanta utan um sinn grafreit, sem er bæði plássfrekt og kostnaðarsamt. Það var erfitt að koma sláttutækjum að svo menn voru að hér fram eftir öllu að slá meira og minna allan garðinn með orfi og ljá, þar til þetta var bannað á sjöunda áratugnum.“