Skólinn hefur verið lyftistöng í tónlistarlífinu hér á staðnum,“ segir Jóhann Morávek, skólastjóri Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu. Ég spyr hvort alltaf sé brjálað að gera hjá honum. „Ja, það er núna … (hugsar) jú, kannski alltaf, það hefur svolítið loðað við mig. Þetta hefur verið fjörleg vika, með afmælishátíðina í endann. Við höfum verið að æfa Maximús Músikús, Pétur Heimisson, framkvæmdastjóri verkefnisins, er sögumaður en við sköffum hljóðfæraleikarana. Þetta er mjög skemmtilegt. Svo eru tónleikar á sunnudaginn þar sem nemendur okkar spila.“

Jóhann segir afmælisins minnst allt skólaárið með metnaðarfullri dagskrá. „Við stefnum meðal annars að því að fá heimsóknir til okkar frá fyrrverandi nemendum sem eru starfandi tónlistarfólk í dag, eða eru í námi. Það er ágætur stabbi. Reynum að setja fókusinn á hverju námið hér hefur skilað.“ Hann er þriðji skólastjórinn frá upphafi, tók við keflinu af Agli Jónssyni árið 1986 en fyrst stóð Sigjón Bjarnason í brúnni. Guðlaug Hestnes er sá kennari sem lengst hefur starfað af þeim sem nú eru við skólann, hún byrjaði 1981.

Spurður hvort eitthvað standi upp úr í starfinu nefnir Jóhann starf Gunnlaugs Þrastar Höskuldssonar sem lést fyrir þremur árum. „Þröstur var svo duglegur bæði með lúðrasveitir og djasssveitir og náði miklum árangri í að efla djassáhuga nemenda. Við sendum frá okkur þó nokkuð af nemendum í FÍH og MÍT djassdeild og höfum átt tvo spilara í Ungfóníunni síðustu ár.

Jóhann kveðst hafa verið 25 ára þegar hann flutti til Hafnar að taka við skólastjórastöðunni, fullur áhuga. „Aðeins dregur úr orkunni með aldrinum en enn er skemmtilegt og alltaf nóg að gera, maður eltir það.“